Sóttvarnahúsið nær fullt

Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður sóttvarnahússins. Þar dvelur fólk í sóttkví …
Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður sóttvarnahússins. Þar dvelur fólk í sóttkví og einangrun, sem ekki á í önnur hús að venda. mbl.is/Ásdís

Um 45 manns eru nú í sóttkví í Sóttvarnahúsinu á Rauðarárstíg, og tveir til viðbótar eru þar sýktir af kórónuveirunni. Þetta segir Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður sóttvarnahússins, í samtali við mbl.is

Fólkið í sóttkvínni er allt umsækjendur um alþjóðlega vernd, en að sögn Gylfa fara þeir í skimun á Keflavíkurflugvelli og þurfa að svo búnu að dvelja í fimm daga í sóttvarnahúsinu áður en þeir fara í aðra skimun. Reynist þeir aftur neikvæðir í þeirri skimun er fólkið útskrifað.

Spurður hvers vegna annar háttur sé hafður á skimunarferlinu hjá þeim en erlendum ferðamönnum, sem þurfa bara í skimun einu sinni við komuna til landsins, segir Gylfi að það sé einfaldlega vegna þess að upplýsingar um þá staði sem fólkið hefur dvalið á liggi ekki fyrir með sama hætti. „Þau þurfa oft að fara í gegnum ýmis lönd á leið sinni til Íslands og því þarf að hafa aðeins meiri gætu á.“

Ríkið er með fimmtíu herbergi á leigu undir sóttvarnahúsið, sem annars er hótel, og segir Gylfi að mögulegt sé að fjölga þeim. Þá sé einnig til skoðunar að taka á leigu annað hús til viðbótar undir starfsemina. „Þá erum við aðallega að hugsa um barnafjölskyldur, en eins og staðan er núna höfum við bara lítil herbergi og litla aðstöðu fyrir barnmargar fjölskyldur,“ segir Gylfi. Í þeim efnum sé litið til Rauðarár, sem stendur einnig við Rauðarárstíg.

Sjálfboðaliðar á vegum Rauða krossins hafa haldið starfsemi sóttvarnahússins gangandi síðustu mánuði, en nú hafa starfsmenn einnig verið ráðnir til vinnu og segir Gylfi að enn sé leitað að fleirum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert