Frumraun fyrsta pólitíska barsins á Íslandi

mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Forsetinn, fyrsti pólitíski barinn á Íslandi, var opnaður fyrr í mánuðinum og í kvöld má segja að barinn þreyti frumraun sína í því hlutverki. Kosningavaka vegna pólsku forsetakosninganna stendur þar yfir.

Ásta Guðrún Helgadóttir, fyrrverandi þingmaður Pírata, er eigandi barsins en hún segir að hugmyndin hafi fæðst þar sem henni hefði þótt stjórnmálaáhugafólk vanta einhvern vettvang til að fylgjast með stórum viðburðum í pólitík í sameiningu. Hún hafi lengi unnið sem kaffibarþjónn og blundað innan henni að opna bar. 

Hópur fólks er samankominn á barnum, íslenskir og pólskir stjórnmálaáhugamenn í bland og segir Ásta að mikil spenna sé í loftinu enda kosningarnar tvísýnar. Stillt verður á pólska ríkissjónvarpið, þar sem kosningavaka hefst á slaginu sjö á íslenskum tíma. Þá mun Tomasz Chaprek, frá menningarfélaginu Projekt Polska rýna í tölurnar.

Þegar ekki eru kosningar er staðurinn venjulegur bar og kaffihús á daginn, en Ásta segist vonast til þess að hægt verði að hýsa umræðufundi og aðra pólitíska viðburði.

mbl.is/Sigurður Ragnarsson
mbl.is/Sigurður Ragnarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert