Litagleði í Reykjanesbæ

Hópurinn hefur meðal annars málað skessu á veggi bæjarins, sem …
Hópurinn hefur meðal annars málað skessu á veggi bæjarins, sem er sögð víðfræg innan bæjarmarka Reykjanessbæjar Ljósmynd/Hughrif í bæ

Listaverk hafa sprottið upp viða í Reykjanesbæ á síðustu dögum og vikum, þá helst á veggjum bygginga og götum bæjarins.

Skapandi sumarstörf í Reykjanesbæ standa fyrir stórum hluta verkanna, en verkefnastjórar segja að mikið sé í gangi hjá þátttakendum verkefnisins. 15 ungmenni á aldrinum 17 til 27 vinna að verkefninu, en þetta er í fyrsta skipti sem skapandi sumarstörf eru starfrækt í Reykjanesbæ.

Mbl.is ræddi við tvo verkefnastjóra Skapandi sumarstafa í Reykjanesbæ, Hildi Hlíf Hilmarsdóttir og Krumma Laxdal, sem segja að hópurinn, sem gengur undir nafninu Hughrif í bæ, vinni að fjölbreyttum verkum, þar á meðal tónleikum, viðburðum og leiksýningum, en hópurinn hefur einnig verið að skreyta veggi og götur bæjarins.

Ljósmynd/Hughrif í bæ

„Við erum með verk á Gamla Pakkhúsinu, og núna erum við að mála veggmynd á Háaleytisskóla á Ásbrú. Svo erum við búin að vera að mála göturnar,“ segir Krummi.

„Svo erum við búin að vera að mála og gera torg í biðstöðu, leiki og þrautabrautir, og mála skemmtilega veggi sem eru illa farnir eða sem hefur ekki verið hugsað um í nokkur ár. Þá erum við aðeins að poppa þá aðeins upp með litum og litagleði og mynstrum og formum og leikjum,“ heldur hann áfram.

Regnbogagata fyrir utan ráðhúsið

Hópurinn málaði regnbogagötu fyrir utan Ráðhúsið í Reykjanesbæ, og gerði það í samráði við Samtökin 78. Ekki var málaður hinn hefðbundni regnbogafáni, sem kenndur er við Gilbert, heldur hinn svokallaði mótmælafáni, sem inniheldur þríhyrning sem samanstendur af svörtum, brúnum, lillabláum, bleikum og hvítum röndum. Nýju rendurnar tákna, samkvæmt upplýsingum Samtakanna 78, transfólk og Black Lives Matter hreyfinguna.

Hildur Hlíf segir að hópurinn hafi verið ákveðinn í að birta hinn nýja fána, og að kallað hafi verið eftir því að fjölbreytileikanum yrði fagnað í Reykjanesbæ.

„Það er mikilvægt fyrir bæjarlífið að virkja ungmennin sín sem eru í skapandi greinum, og sjá hvað afraksturinn getur orðið mikil gleði fyrir alla bæjarbúa,“ segir Hildur. „Það býr til svo fallega stemmningu hérna, það eru allir svo ánægðir með þetta.“

Regnbogagatan fyrir utan ráðhús bæjarins
Regnbogagatan fyrir utan ráðhús bæjarins Ljósmynd/Hughrif í bæ

Gátt hefur opnast í bænum

Skapandi sumarstörf í Reykjanesbæ þó ekki ein um að lífga upp bæinn, en einnig hafa fyrirtæki og fleiri aðilar málað listaverk á byggingar bæjarins.

„Það er eins og það hafi opnast eitthver gátt hérna í Reykjanesbæ. Allir virðast vera á sama máli það vanti smá litagleði í bæinn okkar. Það eru að birtast fallegar myndir og listaverk út um allt,“ Segir Hildur Hlíf

Meðal þeirra listaverka sem sprottið hafa upp á veggjum Reykjanesbæjar er verk listakonunnar Línu Rutar, sem hún málaði á vegg húsgagnaverslunarinnar Bústoð.

„Þetta er gamall draumur hjá mér, og ég hef verið í nokkur ár að horfa í kringum mig að leita af vegg,“ segir Lína í samtali við mbl.is. Hún telur að það sé tilviljun að svona mörg verk séu að birtast í bænum á saman tíma, en hún segir að ákveðinn bolti fara af stað þegar fólk byrjar að gera umhverfið í kringum sig fallegt.

Listaverk Línu Rutar á vegg húsgagnaverslunarinnar Bústoð. Verkið ber nafnið …
Listaverk Línu Rutar á vegg húsgagnaverslunarinnar Bústoð. Verkið ber nafnið Vegferð. Ljósmynd/Lína Rut
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert