Óvænt norðanskot

Kort/Veðurstofa Íslands

Hægir vindar í dag, víða dálítil rigning eða skúrir og sólarlaust að mestu, en milt veður. Á morgun nálgast lægð af Grænlandshafi, sem dýpkar í meira lagi miðað við árstíma.

„Vindur fer því vaxandi og úrkoma sömuleiðis, en um kvöldið verður komin allhvöss eða hvöss austanátt við suðvesturströndina og vindhviður því snarpar við fjöll á þeim slóðum. Frá og með morgundeginum eru ökumenn með aftanívagna því hvattir til að kanna vel veðurspár og akstursskilyrði áður en lagt er af stað.

Lægðin djúpa hreyfist síðan áfram norðaustur yfir landið, en þá leggst í gamalkunna og stífa norðanátt, með kólnandi veðri á norðanverðu landinu og kalsarigningu þegar líður að helginni.

Þetta nokkuð óvænta norðanskot lætur líklega ekki undan síga fyrr en á sunnudag og mánudag, en um að gera að örvænta ekki því nóg er eftir af sumarblíðunni þegar það er yfirstaðið,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Kort/Veðurstofa Íslands

Veðurhorfur næstu daga

Hæg breytileg átt, en suðaustan 5-10 m/s við suðurströndina. Dálítil rigning með köflum eða skúrir í dag, en þokuloft eða og súld úti við N- og A-ströndina. Hiti 8 til 17 stig, hlýjast í innsveitum NA til.

Á miðvikudag:
Vaxandi austan- og suðaustanátt með rigningu, allt að 18 m/s við S- og V-ströndina og um kvöldið, en hægara og úrkomulítið eystra. Hiti 7 til 15 stig, hlýjast á A-landi.

Á fimmtudag:
Suðaustlæg eða breytileg átt, víða 5-13 m/s, en gengur í norðan 13-20 NV til. Rigning á öllu landinu, mest á Vestfjörðum og hiti víða 5 til 10 stig, en allt að 14 stigum eystra.

Á föstudag:
Útlit fyrir allhvassa eða hvassa norðanátt, rigningu og svalt veður á V-verðu landinu, en mun hægara, hlýrra og úrkomuminna fyrir austan.

Á laugardag og sunnudag:
Útlit fyrir áframhaldandi norðanátt með kalsarigningu á N-verðu landinu, en bjartviðri og hlýindum sunnan heiða.

Á mánudag:
Lægir líklega og léttir til víða um land og hlýnar, en áfram fremur svalt fyrir norðan og austan.

Veður á mbl.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert