Bogi: „Erum upp við vegg“

Flugvélar Icelandair á Keflavíkurflugvelli.
Flugvélar Icelandair á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samninganefndir Icelandair og Flugfreyjufélags Íslands hafa fundað formlega hjá ríkissáttasemjara í 50 skipti frá því að viðræður hófust í janúar 2019. Forstjóri Icelandair segir félagið „uppi við vegg“.

Mbl.is hefur undir höndum bréf sem Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair sendi starfsfólki sínu í dag. Þar lýsir hann aðdraganda þeirrar ákvörðunar að slíta samningum við Flugfreyjufélagið og leita til annarra samningsaðila. Hann lýsir ömurlegri stöðu en segir tímann á þrotum. Þetta sé nauðsynlegt til að reyna að bjarga félaginu.

 „Kæra Samstarfsfólk

Það er mér afar þungbært að tilkynna ykkur að samningaviðræður við FFÍ hefur verið slitið.

Frá upphafi samningaviðræðna sem hófust í janúar 2019 var ljóst að um krefjandi verkefni væri að ræða. Alls hafa verið haldnir 50 fundir hjá Ríkissáttasemjara auk fleiri óformlegra funda sem því miður hafa ekki skilað árangri.

Eins og margoft hefur komið fram er landslagið gjörbreytt frá því sem áður var og samkeppnin hefur harðnað mikið. Til þess að eiga möguleika í þessu umhverfi þá þurfum við að bregðast við líkt og önnur félög hafa á liðnum árum gert með verulegum breytingum á kjarasamningum við flugstéttir.

Þar sem viðræðum við FFÍ hefur nú verið slitið verður flugfreyjum og flugþjónum sem starfa hjá félaginu sagt upp og flugmenn félagsins munu frá og með mánudeginum 20. júlí nk. starfa tímabundið sem öryggisliðar um borð. Icelandair gerir ráð fyrir að hefja viðræður við annan samningsaðila á íslenskum vinnumarkaði, um framtíðarkjör öryggis- og þjónustuliða hjá félaginu.

Það er ömurlegt að vera í þessari stöðu. En tíminn er á þrotum og við erum upp við vegg. Þetta er sársaukafull ákvörðun sem er þó nauðsynleg til að reyna að bjarga félaginu frá falli

Kveðja, Bogi“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert