„Í rauninni bara áfall“

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group. mbl.is/Arnþór

Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair segist ekki hafa búist við að það kæmi til þess að félagið yrði að segja upp öllum flugfreyjum félagsins, eins og tilkynnt var um í dag. „Alls ekki. Ég reiknaði með því að við myndum ná samningum við Flugfreyjufélag Íslands alveg eins og Flugmannafélag Íslands og Flugvirkjafélag Íslands,“ segir Bogi í samtali við mbl.is.

„Það eru gríðarleg vonbrigði og í rauninni bara áfall að þetta skyldi fara svona,“ segir Bogi. Um 900 flugfreyjur voru þegar á uppsagnarfresti en 40 enn starfandi hjá félaginu og allar hætta þær störfum strax á mánudag. Þá ganga flugmenn í störf þeirra, á meðan fyrirhugað er að semja við annað flugfreyjufélag. Það þarf að gerast fyrir hlutafjárútboð um miðjan ágúst.

Bogi vonar að þessar flugfreyjur komi til starfa fyrir félagið þó að í gegnum annað stéttarfélag verði, en metur atburðarásina þó þannig að einhverjar muni ekki gera það. „Alla vega voru skilaboðin nokkuð skýr hvað varðar þennan samning sem var skrifað undir en var svo felldur af miklum meirihluta. Það má alveg túlka þau skilaboð á þann veg að ákveðinn hópur sem hefur verið að vinna hjá okkur í þessu hlutverki er ekki tilbúinn til þess áfram miðað við þau kjör sem félagið getur staðið undir fyrir þessi störf,“ segir hann.

Þar eru þá leiðir að skilja? „Miðað við niðurstöðuna í atkvæðagreiðslunni, því félagið kemst ekki lengra hvað kjörin varðar. Við vorum búin að gefa eftir meira en við gátum og komumst alls ekki lengra, því miður,“ segir Bogi. „Maður skilur það að það er sársaukafullt hjá mótaðilanum að gefa eftir ákveðna hluti í samningunum sem er búið að berjast fyrir til margra ára og það er krefjandi að klára það verkefni að ná samningum um slíkt en engu síður verður það að gerast til þess að við getum komið félaginu í gegnum þetta.“

Hægt að vinna þetta tiltölulega hratt

Bogi segir ekkert liggja fyrir um hvaða stéttarfélag verði samið við í stað Flugfreyjufélag Íslands. Hann segir þó að hægt sé að ganga hratt frá málinu ef mótaðili er tilbúinn til þess. „Það eru stéttarfélög til á Íslandi í dag sem hugsanlega gætu verið mótaðili í svona. En við höfum ekki hafið viðræður við neinn aðila hvað þetta varðar. Ef mótaðilinn er klár í það held ég að það sé hægt að vinna þetta tiltölulega hratt,“ segir hann.

Hann segir að á næsta mánuði verði farið í að koma þessu í kring en að upp úr þessu verði ekki samið við flugfreyjufélagið. Það hafi ekki verið unnt að komast að samkomulagi þar. 

Samningsdrögum á milli Icelandair og flugfreyja var hafnað í atkvæðagreiðslu …
Samningsdrögum á milli Icelandair og flugfreyja var hafnað í atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna hjá Flugfreyjufélagi Íslands í maí. Arnþór Birkisson

Sögulegar ástæður valdi því að bilið sé of breitt. „Síðustu 20 árin er búið að stofna ný flugfélög í kringum okkur og síðan hafa gamalgrónu félögin eins og SAS og Finn Air verið að gera breytingar á samningum við flugstéttirnar í hagræðingarátt en við höfum aðeins setið eftir. Þannig að bilið sem þarf að brúa er ansi breitt, en engu síður er það staðan. Á sama tíma og við þurfum að gera verulegar breytingar á þessum samningum til einföldunar og auka sveigjanleika og hagræða í rekstrinum munum við þó áfram bjóða upp á ein bestu kjör á alþjóðamarkaði fyrir flugfreyjur og flugþjóna,“ segir Bogi.

Flugmenn bera ekki fram kaffi

Á mánudaginn hefja flugmenn félagsins að sinna öryggis- og þjónustuhlutverki um borð í vélum félagsins, sem að sögn Boga felst þó fyrst og fremst í öryggishlutverki. 

„Eins og hefur verið undanfarnar vikur hjá okkur vegna COVID-19 er þjónustan lítil sem engin um borð. Kaffi hefur þannig ekki verið serverað á síðustu viku. Það hefur ekki verið þjónusta um borð í okkar vélum og verður ekki á næstu vikum. Þjónustan er ekki að fara að breytast útaf þessu.“

Flugmennirnir fara í óverulega þjálfun þar sem þeir hafa ekki verið að sinna þessu hlutverki, en hafa að öðru leyti tilskilin réttindi. 

Bogi segir að sú ákvörðun að endurráða flugmenn aftur, eins og gert var í vikunni, tengist þessum áformum ekki. Flugmenn hafi þó samþykkt að ganga í umrædd störf en þeim var tilkynnt þetta í morgun.

„Þeir eru ekkert ánægðir með að samningar séu ekki að nást við Flugfreyjufélag Íslands og telja að það sé besta lausnin að samningar náist. Ég myndi því ekki segja að þeir séu ánægðir með stöðuna en þeir vilja stuðla að því að samgöngur haldist gangandi hér og félagið haldi áfram að fljúga,“ segir Bogi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert