„Þetta verður ekki látið viðgangast“

Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Drífa Snædal, forseti ASÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta horfir þannig við okkur að Icelandair er að fara í undirboð – fara gegn þeim leikreglum sem hafa gilt á vinnumarkaði hingað til,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ, um þá ákvörðun Icelandair að segja upp flugfreyjum og láta flugmenn starfa sem öryggisliða um borð í flugvélum tímabundið.

„Þeir eru að sýna starfsfólki sínu fullkomna lítilsvirðingu og þetta verður ekki látið viðgangast. Það er verið að leita allra leiða til að bregðast harkalega við þessu,“ bætir Drífa við.

Icelandair gaf út tilkynningu um klukkan hálf tvö í dag að félagið hefði sagt upp öllum flugfreyjum og flugþjónum og að flugmenn Icelandair myndu sinna starfi öryggisliða um borð í stað þeirra.

Icelandair verði að svara fyrir orðalagið

Í tilkynningunni kemur einnig fram að „félagið gerir ráð fyrir að hefja viðræður við annan samningsaðila á hinum íslenska vinnumarkaði, um framtíðarkjör öryggis- og þjónustuliða hjá félaginu.”

Spurð hvort þetta þetta þýði að nýtt flugfreyjufélag hafi verið stofnað eða unnið sé að stofnun slíks félags segir Drífa að Icelandair verði að svara fyrir það. Þess ber að geta að Flugfreyjufélag Íslands á aðild að ASÍ.

„Ég hef ekki orðið þess áskynja að flugfreyjur á Íslandi séu að stofna nýtt stéttarfélag eða hafi stofnað annað stéttarfélag. Hugmyndin með stéttarfélögum er að starfsfólkið stofni sjálft félag og stýri því,“ segir hún og bætir við:

„Icelandair verður að svara því þegar þeir gefa út tilkynningu og segjast ætla að semja við aðra aðila. Þeir þurfa að svara því hvað þeir eru að meina.“

Mun reyna á leikreglur vinnumarkaðarins í þessu máli

Þá segir hún að það verði skoðað hvort að það gangi upp lagalega að skylda flugmenn til að sinna starfi öryggisliða.

„Við erum að skoða hvað við og Flugfreyjufélag Íslands gerum en það er alveg ljóst að það mun reyna á leikreglur vinnumarkaðarins í þessu máli. Icelandair getur ekki búist við því að njóta áfram þeirrar velvildar sem félagið hefur notið í íslensku samfélagi,“ segir hún.

Lífeyrissjóðir og stjórnvöld leggi félaginu ekki til fé

ASÍ mun að sögn Drífu gera þær kröfur að lífeyrissjóðir taki ekki þátt í fyrirhuguðu hlutafjárútboði Icelandair og að stjórnvöld leggi ekki fé til flugfélagsins úr sameiginlegum sjóðum skattgreiðenda.

„Við munum gera kröfu um það að lífeyrissjóðir starfsfólks á Íslandi verði ekki notaðir til þess að fara í hlutafjárútboð og taka þátt í því gegn hagsmunum vinnandi fólks ef Icelandair ætlar að haga sér svona. Við munum að sjálfsögðu líka gera þá kröfu að stjórnvöld séu ekki að greiða út úr okkar sameiginlegu sjóðum til Icelandair – til fyrirtækis sem kemur svona fram við starfsfólk,“ segir hún að lokum.

Hafi þegar flutt skrifstofustörf til láglaunasvæða

Í yfirlýsingu ASÍ sem gefin var út í gær kom fram að forsetateymi Alþýðusambands Íslands ásamt formönnum í Flugfreyjufélagi Íslands, VR, Verkalýðs- og sjómannafélagi Sandgerðis og Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis hefðu fundað í gærmorgun þar sem farið var yfir grafalvarlega stöðu í kjaradeilu Icelandair við Flugfreyjufélagið.

„Undirliggjandi eru hótanir um að „leita annarra leiða“ frekar en að klára kjarasamninga við flugfreyjur- og þjóna. Verður slík hótun aðeins skilin þannig að Icelandair ætli sér að virða að vettugi leikreglur íslenska vinnumarkaðarins og fara í félagsleg undirboð,“ segir í þeirri yfirlýsingu.

Þar segir einnig að Icelandair hafi nú þegar flutt störf frá skrifstofu félagins til láglaunasvæða annars staðar í heiminum og slíka þróun verði að stöðva og vinda ofan af.

„Það er alveg ljóst að það eru ekki hagsmunir launafólks að lífeyrir sé notaður til að styðja við fyrirtæki sem grefur undan samningsrétti og lífskjörum fólks á íslenskum vinnumarkaði. Ekki verður séð hvernig lífeyrissjóðir geta virt eigin siðareglur og fjárfestingastefnu en jafnframt tekið þátt í hlutafjárútboði félags sem grefur undan hagsmunum launafólks á íslenskum vinnumarkaði. Einnig er það skýr krafa verkalýðshreyfingarinnar að stjórnvöld noti ekki sameiginlega sjóði okkar til að styðja við Icelandair nema réttindi starfsfólks séu virt,“ segir þar jafnframt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  • Engin mynd til af bloggara Freysteinn Guðmundur Jónsson: Drífa
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert