Sjálfboðaliðar „lyftu grettistaki“ í Bíó Paradís

Nánast allt var rifið út úr Bíó Paradís í dag.
Nánast allt var rifið út úr Bíó Paradís í dag. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Sjálfboðaliðar unnu í dag að því að „koma Bíó Paradís í sparigallann“ og verður framhald á þeirri vinnu á morgun en Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradísar er bjartsýn á að bíóið verði opnað 11. september næstkomandi eins og gert er ráð fyrir. 

Þegar blaðamaður náði tali af Hrönn sat hún með fjölda sjálfboðaliða þar sem þau gæddu sér á vængjum og bjór. 

„Það er búið að lyfta hér grettistaki. Hingað kom her sjálfboðaliða,“ segir Hrönn. Barinn var rifinn út, sem og kerfisloftið í anddyrinu, gamlar níðþungar sýningavélar voru fjarlægðar og var hvert einasta sæti bíósins skrúfað í sundur en þau eru alls 385. Þau á að bólstra upp á nýtt. 

Heill her sjálfboðaliða mætti á svæðið.
Heill her sjálfboðaliða mætti á svæðið. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Um tíma stóð til að loka þyrfti bíó­inu end­an­lega eft­ir að leig­an á hús­næðinu var hækkuð, en því tókst að af­stýra með því að Reykja­vík­ur­borg og ríkið juku stuðning sinn við bíóið.

Halda í anda Bíó Paradísar

Spurð hvort það sem muni blasa við gestum Bíó Paradísar 11. september verði allt annað bíó en áður var segir Hrönn að svo verði ekki.

„Við erum að halda í anda Bíó Paradísar. Við erum að endurvinna og endurnýta allt sem við getum nýtt og allt sem við getum ekki nýtt fer í endurvinnslu. Við erum að reyna að gera þetta á mjög umhverfisvænan hátt.“

Vinnan við endurbætur mun halda áfram, einnig eftir að bíóið verður opnað. Næsta sumar er til að mynda stefnt á að skipta salernum út og koma á aðgengi fyrir fatlaða í sölum tvö og þrjú. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert