Landspítalinn sá um greiningu allra sýna sem tekin voru við landamæri Íslands í dag og er sýkla- og veirufræðideildin þar með tekin við hlutverki sem Íslensk erfðagreining hefur hingað til haft með höndum.
Ferlið er því komið úr höndum einkafyrirtækisins, eins og hefur verið vilji forstjóra þess, Kára Stefánssonar, allar götur síðan kórónuveirufaraldurinn hætti að valda neyðarástandi hér á landi. Hann tilkynnti með vikufyrirvara í upphafi mánaðar að ÍE væri hætt að greina sýnin og að hann hygðist draga sig úr ferlinu 14. júlí. Sú áætlun stóðst því með fimm daga seinkun.
Þetta þýðir að tölfræðin um greind smit við landamærin sem birtist klukkan ellefu í fyrramálið verður einvörðungu afurð starfs Landspítalans, ásamt því sem Heilsugæslan annast það hér eftir sem hingað til að taka sjálf sýnin.
Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á Sýkla- og veirufræðideild, segir að greiningin hafi gengið vel í dag. „Þetta hefur til þessa gengið vel og ekki neitt sem hefur komið upp,“ segir hann í samtali við mbl.is. Hann spáir engum slysum og „vonandi gengur þetta bara smurt áfram,“ segir hann.
Til þess að margfalda afkastagetuna á veirufræðideildinni var brugðið á það ráð að setja fimm sýni saman í safnsýni og greina þannig. Það var gert í dag en Karl segir að um sinn verði afkastagetan ekki meiri en upp á 2.000 sýni á dag, alltént uns bætist við tækjakostinn.
Hann segir að von sé á nýju einangrunartæki um mánaðamótin sem eigi að auka afkastagetuna. Hve mikið er óljóst. Á fimmtudaginn í síðustu viku var farið að hleypa farþegum frá fjórum þjóðum inn í landið skimunarlaust þar sem gögn bentu til þess að það væri óhætt. Það var að hluta einnig mótvægisaðgerð vegna þess að afköstin voru komin að þolmörkum í skimun á flugvellinum.
Þegar Kári tilkynnti að ÍE væri hætt að greina sýnin frá og með 14. júlí varð uppi fótur og fit, þar sem óljóst var hvað tæki við. Stjórnvöld höfðu séð fyrir sér að Landspítalinn tæki við greiningunni í lok júlí en þarna var því mjög flýtt.
Fyrst töluðu ráðamenn og stjórnendur spítalans á þá leið að ekki væri hægt að taka við þessu svona hratt, síðan var gefið út að það yrði engu síður gert en loks að það yrði gert en ekki algerlega í tæka tíð. Íslensk erfðagreining var stjórnvöldum áfram „innan handar“ þvert á fyrri yfirlýsingar en er eftir daginn í dag laus allra mála, nema Landspítalinn leiti liðsinnis þeirra aftur ef eitthvað fer úrskeiðis.