Hyggst leggja fram frumvörp um stjórnlagabreytingar að hausti

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist vonast til þess að ljúka vinnu við ný stjórnlagafrumvörp í september. 214 umsagnir bárust um stjórnarskrárbreytingafrumvarp í samráðsgátt stjórnvalda. 

Stór hluti þeirra umsagna sem bárust sneru að því að niðurstöður ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá sem fram fór árið 2012 verði virtar. 

Í samtali við RÚV segir Katrín að nú verði unnið úr þeim umsögnum sem bárust og reiknar hún með að vinnu við frumvörpin ljúki í haust. Hún segir margar áhugaverðar umsagnir hafa borist. 

„Ég tók til að mynda eftir umsögn sem barst um að réttast væri að miða við árið sem fólk verður átján ára en ekki afmælisdag þegar kemur að því að geta kosið. Sem mér fannst nú áhugaverð tillaga og ég er allavega reiðubúin að ræða í hópi formanna flokkanna,“ segir Katrín. 

Katrín segist vonast til þess að ágæt samstaða náist um frumvörpin.  „Það hins vegar er ekki nokkuð sem ég endilega á von á, að það muni allir flokkar standa á bak við þessar tillögur,“ segir Katrín

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert