Telur öryggi sínu ógnað á Íslandi

Jef­frey Ross Gun­ter á sýningunni Af jörðu ertu kominn.
Jef­frey Ross Gun­ter á sýningunni Af jörðu ertu kominn. mbl.is/Sigurður Bogi

„Þrátt fyrir að hafa verið skipaður sendiherra í einu öruggasta landi í heimi hefur Jeffrey Ross Gunter verið vænisjúkur um öryggi sitt síðan hann kom til Reykjavíkur á síðasta ári.“

Svona hefst ítarleg umfjöllun CBS News um sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, en þetta herma fjölmargar heimildir CBS úr utanríkisþjónustu Bandaríkjanna.

Í umfjöllun CBS er fullyrt að Gunter hafi óskað eftir því við utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna að sér yrði útvegað sérstakt leyfi íslenskra stjórnvalda til þess að bera skotvopn. Þá á hann einnig að hafa óskað eftir brynvörðum bíl, auk þess sem hann hafi viðrað hugmyndir um vesti sem gæti varið hann fyrir hnífstunguárásum.

Jeffrey Ross Gunter með Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands.
Jeffrey Ross Gunter með Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna neitaði að segja opinberlega til um hvort öryggi Gunters væri raunverulega ógnað á Íslandi, en samkvæmt upplýsingum frá embættismönnum hefur Gunter margsinnis verið tjáð að hann sé ekki í neinni sérstakri hættu. 

Þrátt fyrir það auglýsti bandaríska sendiráðið á Íslandi nýlega eftir lífvörðum í fullt starf, meðal annars í Morgunblaðinu 18. júlí síðastliðinn, en heimildir CBS herma að það sé gert til þess að sefa áhyggjur Gunter.

Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna tjáir sig ekki um séstakar öryggisaðgerðir í tengslum við sendiráð sín en segir það ávallt markmiðið að öryggi sé tryggt með fyrirbyggjandi hætti. Ráðuneytið svarar ekki spurningum er varða ósk Gunters um að vopnbúast og íslenska utanríkisráðuneytið vill ekki segja til um hvort Bandaríkin hafi formlega óskað eftir því að sendiherrann mætti bera skotvopn, og segjast venjulega ekki tjá sig um öryggismál erlendra sendiskrifstofa.

Auglýsing sendiráðsins í Morgunblaðinu 18. júlí sl.
Auglýsing sendiráðsins í Morgunblaðinu 18. júlí sl.

CBS hefur hins vegar eftir íslenskum heimildarmönnum sínum að beiðni þess efnis hafi aldrei verið lögð fram, og að sögn þriggja bandarískra embættismanna var Gunter fenginn ofan af þessum áætlunum sínum þar sem þær gætu orðið til þess að móðga heimamenn á Íslandi.

Fjarverandi í miðjum kórónuveirufaraldri

Í umfjöllun CBS er jafnframt fjallað um ýmis vandkvæði sem hafa verið viðloðandi bandaríska sendiráðið á Íslandi síðan Gunter var skipaður sendiherra á síðasta ári, en hann mun þegar hafa skipt varasendiherra sínum út sjö sinnum. Þannig er fyrsti varasendiherrann sagður hafa búið sig lengi undir starf sitt og lært íslensku aðeins til þess að hafa verið neitað um stöðuna á síðustu stundu af því Gunter „leist ekki á hann“ á fyrsta fundi þeirra. Eftirmönnum hans hefur ekki gengið mikið betur undir stjórn Gunters.

Stjórnendur innan utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna eru sagðir meðvitaðir um stöðuna í sendiráðinu á Íslandi, en tregir til þess að grípa inn í mál er tengjast forsetanum nánum böndum. Auk alls þessa er Gunter sagður tregur til þess að fylgja ýmsum reglum utanríkisþjónustunnar og virða valdaröðina.

Gunter ferðaðist til Bandaríkjanna í febrúar til þess að taka þátt í ráðstefnu í Washington, og er sagður hafa neitað að snúa aftur til Íslands í kjölfarið og látið tímabundinn staðgengil sinn sinna starfi sínu svo mánuðum skipti, og það í miðjum heimsfaraldri. Mun Gunter jafnvel hafa óskað eftir því að fá að sinna starfi sínu í fjarvinnu og sagst ekki ætla að snúa aftur til Íslands nema utanríkisráðherrann sjálfur, Mike Pompeo, óskaði eftir því sérstaklega. 

Gunter, fyrir miðju.
Gunter, fyrir miðju. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hafði Gunter ákveðið að taka sér persónulegt leyfi að ráðstefnunni lokinni og kórónuveirufaraldurinn tafið för hans enn frekar, en samkvæmt heimildum CBS munu fjölmargir innan ráðuneytisins hafa beðið Gunter að snúa aftur til Íslands, en það hafi hann ekki gert fyrr en í maí, í kjölfar þess að Pompeo hafði við hann samband og bað hann vinsamlegast að snúa aftur í sendiráðið á Íslandi.

Í umfjöllun CBS er jafnframt greint frá óvinsældum Gunters á Íslandi, sérstaklega í tengslum við tíst þar sem hann kallar kórónuveiruna „ósýnilegu Kínaveiruna“ og hefur hlotið mikla gagnrýni fyrir.

Gunter er einn fjölmargra, nánast óreyndra á sviði utanríkismálaþjónustu sendiherra sem skipaðir hafa verið í stjórnartíð Donalds Trumps Bandaríkjaforseta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert