Sýkt en margsinnis neitað um sýnatöku

Gilad Peleg og Ragnheiður Finnbogadóttir.
Gilad Peleg og Ragnheiður Finnbogadóttir. Ljósmynd/Aðsend

Sambýlismanni ungrar konu var margsinnis neitað um sýnatöku fyrir Covid-19 í síðari hluta júlímánaðar. Þau eru bæði smituð af Covid-19-sjúkdómnum.

Ragnheiður Finnbogadóttir hringdi fyrst á mánudegi, þegar sambýlismaður hennar, Gilad Pelag, sem starfar sem leiðsögumaður og smitaðist af ísraelskum ferðamanni, var orðinn veikur og sýndi mörg einkenni sjúkdómsins. Hún hringdi í heilsugæsluna í kjölfarið á þriðjudegi þegar hann var kominn með mikinn hita og hósta, og á miðvikudegi, en fékk neitun í öll þrjú skiptin.

Tók málin í eigin hendur

Það var ekki fyrr en hún tók málin í eigin hendur sem eitthvað gerðist. Þá hafði hún samband við vin sinn sem er læknir sem þótti ástæða til þess að koma heim til þeirra að taka sýni sem reyndust svo jákvæð.

„Ég hringdi í heilsugæsluna fyrst á mánudegi og þá var hann orðinn veikur. Þá þótti ekki ástæða til þess að taka sýni, en ég er á vinnustað sem er mjög skilningsríkur og fékk að vera heima þar sem mér leist ekki á þetta,“ segir Ragnheiður við mbl.is.

„Á þriðjudegi var hann kominn með mikinn hósta og hita en aftur fengum við neitum frá heilsugæslunni um að fara í sýnatöku,“ segir Ragnheiður.

Í símtalinu á miðvikudag segir Ragnheiður að svörin frá heilsugæslunni hafi verið á þá leið að hann fengi ekki að fara í sýnatöku fyrr en á föstudeginum en aðeins ef ástand hans myndi versna. Á föstudag var hann ekki lengur með hita.

Óhugnanleg tilhugsun

„Okkur líður ágætlega og erum bæði hitalaus. En við erum líka búin að vera veik í viku. Þetta er þannig séð bara eins og venjuleg hálsbólga sem segir manni líka hvað þetta getur verið lúmskt. Ef það væri ekki fyrir þessi sýni hefði ég haldið að þetta væri bara venjuleg hálsbólga,“ segir Ragnheiður og heldur áfram:

„Ef maður hugsar út í það hvað þetta hefur borist hratt út í öðrum tilfellum, hefðum við ekki fengið að fara í sýnatöku, hefði ég ekki þekkt þennan vin minn, þá hefði ég kannski bara farið í vinnuna og hann haldið áfram í sinni vinnu, og borið þetta út um allt. Það er óhugnanleg tilhugsun,“ segir Ragnheiður.

„Mér finnst orðræðan vera svolítið þannig að fólkið í landinu sé of slakt og sé að smita þegar maður er á sama tíma að reyna að komast í sýnatöku og fær það ekki. Mér finnst ósanngjarnt að umræðan sé þannig,“ segir Ragnheiður.

Hún tekur þó fram að eftir að þau greindust með Covid-19 hafi utanumhaldið verið gott og starfsfólk Landspítalans reglulega hringt til þess að athuga stöðuna á þeim og hvernig þeim liði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert