„Greinilega bjartir tímar fram undan í Breiðholti“

Breiðholt í Reykjavík. Verði hugmyndirnar að raunveruleika væri meðal annars …
Breiðholt í Reykjavík. Verði hugmyndirnar að raunveruleika væri meðal annars hægt að fjölga íbúum um 3 þúsund, verslunarkjarnar verða byggðir upp að nýju og heils árs vetrargarði komið upp efst í Seljahverfi. mbl.is/Sigurður Bogi

Flestar tillögurnar sem kynntar voru í hugmyndum fyrir nýtt hverfisskipulag fyrir Breiðholt eru í takt við þær óskir sem hafa komið fram hjá íbúum að undanförnu og í heildina jákvæðar fyrir hverfið. Gangi þær eftir munu þær meðal annars lyfta undir félagslíf og íþróttalíf á svæðinu. Þetta segir Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir sem er formaður íbúasamtakanna Betra Breiðholts og situr í íbúaráði Breiðholts fyrir hönd samtakanna. 

Reykjavíkurborg kynnti í vikunni uppbyggingarverkefnið í tengslum við nýtt hverfisskipulag sem nú er unnið að fyrir flest hverfi borgarinnar. 

Hugmyndir fyrir nýtt hverfisskipulag fyrir Breiðholt voru kynntar í vikunni.
Hugmyndir fyrir nýtt hverfisskipulag fyrir Breiðholt voru kynntar í vikunni. Mynd/Reykjavíkurborg

mbl.is hefur fjallað um tillögurnar, en í þeim felast meðal annars útfærslur sem gefa færi á að fjölga íbúum í hverfinu um þrjú þúsund á næstu árum. Það er meðal annars gert með því að húseigendum verður einfaldað að fá leyfi til að byggja við hús sín til að leigja út nýja húsnæðið. Þá kem­ur til greina að heim­ila bygg­ingu nýrra hæða ofan á lyftu­laus fjöl­býli gegn því að sett verði þar lyfta.

Þá er horft til mögulegrar uppbyggingar á hverfiskjörnum í Breiðholti, svo sem við Arnarbakka og við Eddufell. Einnig er horft til uppbyggingar á vetrargarði efst í Seljahverfinu þar sem skíðabrekkan er. Er hugmyndin að þar sé hægt að skipu­leggja alls kyns íþrótta­mót og aðra viðburði, all­an árs­ins hring

Flestar tillögurnar mjög jákvæðar, en einhverjar skortir þó innsýn

„Flestar tillögurnar eru mjög jákvæðar fyrir hverfið. Þó að einhverjar þeirra skorti smá innsýn eru miklu fleiri jákvæðar en annað,“ segir Jóhanna og bætir við að hún sé persónulega spenntust fyrir hugmyndinni um vetrargarðinn. Íbúaráðið fékk nýlega kynningu á verkefninu og segir Jóhanna að sér hafi litist vel á flestar hugmyndirnar en vetrargarðurinn hafi staðið upp úr hjá sér og það sé viðbót sem gæti lyft mikið undir félagslíf og íþróttalíf í hverfinu.

Jóhanna segir aðrar hugmyndir flestar í takt við það sem Breiðhyltingar hafi óskað eftir í íbúakosningum um betri Reykjavík. Það eigi meðal annars við um mögulega uppbyggingu á hverfiskjörnum og nefnir hún þar á meðal Arnarbakka sem lengi hafi verið til umræðu. Þar sé verslunarkjarni í niðurníðslu sem gera mætti heilmikið fyrir. Það eigi líka að miklu leyti við um verslunarkjarnann í Eddufelli að sögn Jóhönnu.

Víða er horft til þess að byggja upp verslunarkjarna sem …
Víða er horft til þess að byggja upp verslunarkjarna sem hafa mundað fífil sinn fegri. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Í takt við tíðarandann

Segir hún verslunarkjarna sem þessa hafa verið byggða fyrir nærþjónustu á sínum tíma og að finna megi dæmi um þá víða um borgina. Síðan hafi komið hnignunarskeið þeirra þar sem fólk fór í auknum mæli að sækja þjónustu og verslanir á stærri stöðum. Nú sé hins vegar þróun til baka og nærverslun sé að aukast mikið og tillögurnar því í takt við tíðarandann.

Samkvæmt núverandi hugmyndum er gert ráð fyrir að verslunar- og þjónustuhúsnæði verði á neðstu hæðum en þar fyrir ofan verði íbúðarhúsnæði. Segir Jóhanna að þar sé sérstaklega horft til minni íbúða sem sé skortur á. Til viðbótar við þetta nefnir hún að alls konar verkefni sem hafi sprottið upp í hverfinu þrífist vel í slíku umhverfi og nefnir sem dæmi Stelpur rokka, Hjólakraft og Karlana í skúrnum. Svona uppbygging sé því félagsleg búbót fyrir hverfið.

Gæti aukið verðmæti eigna

Varðandi aðrar hugmyndir sem kynntar voru í átt að þéttingu byggðar var að gera húsfélögum kleift að byggja ofan á núverandi fjölbýlishúð eina hæð. Jóhanna segir alls óvíst hvort húsfélög muni fara þessa leið en þarna sé tækifæri. Samhliða slíkri breytingu þyrfti að bæta við lyftuhúsi og segir Jóhanna að með því væri hægt að fjölga mögulegum kaupendum íbúða og þar með auka verðmæti eignanna. Vísar hún þar til þess að með lyftu séu eignir álitlegri fyrir eldri kaupendur. Þannig sé stærstur hluti fjölbýlishúsa í Bökkunum og í Seljahverfi ekki með lyftum og þar gæti þessi leið komið til skoðunar.

Hverfisskipulag Reykjavíkurborgar hefur nú kynnt tillögur sínar að langtímauppbyggingu í …
Hverfisskipulag Reykjavíkurborgar hefur nú kynnt tillögur sínar að langtímauppbyggingu í Breiðholti. mynd/Reykjavíkurborg

Gagnrýnisraddir benda meðal annars á bílastæði og græn svæði

„Ég persónulega er mjög spennt fyrir þessu og það er heiður að Breiðholtið skuli koma svona fljótt að í þessum aðgerðapakka. Það eru greinilega bjartir tímar fram undan í Breiðholti,“ segir Jóhanna. Hún tekur þó fram að hún geti ekki svarað fyrir hönd allra íbúa og ljóst sé að fólk sé með mismunandi skoðanir í þessum efnum.

Þannig hafa til að mynda spunnist talsverðar umræður um hverfisskipulagið á facebooksíðu íbúasamtakanna. Gagnrýna þar nokkrir meðal annars hugmyndir um fjölgun íbúða og breytingu í kringum verslunarkjarnana, meðal annars að það verði gert á kostnað bílastæða. Einnig að slíkar breytingar kæmu niður á grænum svæðum. Jóhanna segir gagnrýni margra réttláta sem meðal annars helgist af mismunandi skoðunum, hins vegar sé misskilningur hjá íbúum, meðal annars að farið verði í viðbyggingar á hús án samþykkis húsfélaga. Hvetur hún íbúa Breiðholts til að kynna sér tillögurnar vel, en þær má finna á vef hverfisskipulagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert