Ungt fólk getur orðið alvarlega veikt

Alma Möller landlæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Alma Möller landlæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag. Ljósmynd/Lögreglan

Alma Möller landlæknir segir ánægjulegt að ekki hafi fleiri en þrír greinst í gær með kórónuveirusmit, en áréttar að ekki sé hægt að draga ályktanir um gang veirunnar á slíkum sveiflum daga á milli. Í fyrradag greindust 17 innanlandssmit. Alma tók það fram á fundinum að ungt og hraust fólk gæti orðið alvarlega veikt.

Landlæknir ítrekaði það sem sóttvarnalæknir hefur hamrað á síðustu daga, að „næstu dagar muni skera úr um hvort við höfum náð böndum á þessum faraldri“. Og þar með hvort herða þurfi sóttvarnaaðgerðir á Íslandi, sem sóttvarnalæknir hefur sagt að sé til alvarlegrar skoðunar.

Nú er skimað út frá tilfellum, og fólki í kringum hina smituðu, en ekki eftir slembiúrtaki eins og gert var í upphafi mánaðar á vegum Íslenskrar erfðagreiningar.

Veiran er áfram af sama stofni og innanlandssmitin hafa langflest verið. Raðgreining hefur leitt það í ljós. Þó hefur enn ekki verið hægt að rekja saman nokkurn fjölda smitaðra og „það er okkar aðaláhyggjuefni,“ sagði Alma. Tvö þriggja innanlandssmita sem greindust í gær voru tengd smiti í Vestmannaeyjum. Tveir þriggja höfðu þá verið í sóttkví þegar smitin greindust.

Verslanir þurfa að bæta sig

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn tók í sama streng og Alma um að láta ekki sveiflur í fjölda smitaðra koma sér úr jafnvægi. Mikið hafi verið hugað að möguleikanum á hertum sóttvarnaaðgerðum, en að mestu máli skipti í þeim efnum að farið sé eftir þeim ráðstöfunum sem þegar eru í gildi.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. Ljósmynd/Lögreglan

Þar þurfa verslanir víða að koma skikki á sín mál, enda hafi lögreglu borist of margar ábendingar utan úr bæ um að til dæmis tveggja metra reglan sé virt að vettugi í slíkum rýmum. Þar dugar ekki að hafa sóttvarnahólf til sýnis, heldur þyrftu þau að virka sem slík ef duga skyldi.

Ungt og hraust fólk getur orðið alvarlega veikt

Einstaklingur á fertugsaldri er í öndunarvél á gjörgæslu vegna COVID-19. Fleiri eru ekki á sjúkrahúsi. Alma landlæknir: „En ég veit að það eru einhverjir sem eru veikir, þannig að það er verið að fylgjast með þeim. Það er sem betur fer einungis einn inniliggjandi. Ég legg áherslu á að ungt og áður hraust fólk getur orðið alvarlega veikt.“

„Það er ekki að ástæðulausu sem við erum í þessum aðgerðum. Þessi veira er skæð og hún getur valdið veikindum hjá mjög mörgum ef ekkert er að gert. Það er umtalsverður hluti þeirra sem fær hana í sig sem veikist alvarlega. Af þeim sem við greindum í vetur þurftu 7% á sjúkrahússinnlögn að halda og 1,5% á gjörgæslu að halda.

Vissulega er áhættan mest fyrir þá eldri að veikjast alvarlega en það er samt þannig að fólk á öllum aldri getur orðið alvarlega veikt. Síðan vitum við að umtalsverður hluti þeirra sem veiktist lítið í vetur er samt með mjög langvarandi og fjölbreytt einkenni meðal annars mikið úthaldsleysi,“ sagði Alma þá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert