Á fjórða tug starfsmanna Torgs í sóttkví

Fréttablaðið er til húsa við Hafnartorg í miðborg Reykjavíkur.
Fréttablaðið er til húsa við Hafnartorg í miðborg Reykjavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

36 starfsmenn Torgs, sem rekur miðlana Fréttablaðið, DV, og Hringbraut, eru nú komnir í sóttkví sem lýkur á miðnætti 18. ágúst. 

Jóhanna Helga Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri Torgs, segir að þetta hafi verið niðurstaða smitrakningarteymis almannavarna í kjölfar smits sem kom upp hjá starfsmanni DV fyrir helgi. 

Fyrst um sinn var aðeins ætlað að ritstjórn DV færi í sóttkví, eða um 10 manns, en í gær var ljóst að fleiri þyrftu að fara í sóttkví. Starfsfólk Torgs er um 100 í heild, þar af 80-90 á skrifstofunni á Hafnartorgi. 

Jóhanna segir starfsmenn Torgs vera vana fjarvinnu eftir veturinn og að starfsemi miðla Torgs verði með óbreyttu sniði meðan á sóttkví stendur. 

Þá segir Jóhanna að ástæða þess að þörf fyrir sóttkví hafi verið endurskoðuð sé sú að við rannsókn á sýni kom í ljós að sá sem greindist með veiruna var meira smitandi en fyrst var talið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert