Miklir vatnavextir á Suðurlandi – Krossá ófær

Miklir vatnavextir eru í Þórsmörk. Rúturnar komust yfir fyrri hluta …
Miklir vatnavextir eru í Þórsmörk. Rúturnar komust yfir fyrri hluta árinnar að göngubrúnni við Langadal. Yfir síðari hlutann er nú ófært. Ljósmynd/Höskuldur Elefsen

Miklir vatnavextir eru í ám og lækjum á Suður- og Vesturlandi og von er á frekari vatnavöxum á komandi dögum. Úrhelli er á Suðurlandi og hefur það meðal annars skilað því að Krossá er ófær og leiðin inn í Bása á Goðalandi er aðeins fær mikið breyttum jeppum. Þá er vonskuveður á Fimmvörðuhálsi og ferðafólk beðið að halda ekki á hálsinn.

Ekki er lengur hægt að ganga yfir tvær af þremur …
Ekki er lengur hægt að ganga yfir tvær af þremur göngubrúm sem eru yfir Krossá, meðal annars þessa sem er við Bása. Ljósmynd/Þóra Björg Ragnarsdóttir

Vatnsyfirborð Krossár hækkaði um 25 cm

Þóra Björg Ragnarsdóttir, skálavörður í Básum, segir í samtali við mbl.is að frá hádegi og til klukkan þrjú síðdegis hafi vatnsyfirborð Krossár hækkað um 25 sentímetra. Rútur sem áttu að fara inn í Langadal og Húsadal hættu við að fara yfir ána og þurftu farþegar sem þar voru að fara yfir göngubrúna við Langadal þar sem rúturnar biðu. Tvær aðrar göngubrýr sem eru yfir Krossá; nálægt Básum og við enda Merkurranans, eru ófærar sem stendur þar sem álar hafa myndast fyrir framan þær.

Krossá er í miklum vexti þessa stundina.
Krossá er í miklum vexti þessa stundina. Ljósmynd/Þóra Björg Ragnarsdóttir

Þóra segir að rigningin hafi byrjað seinni partinn í gær og í morgun hafi þau sent fólk sem var á tjaldstæðinu í burtu, enda voru miklir vatnavextir í bæði Steinholtsá og Hvanná og sú síðarnefnda farin að grafa sig talsvert. Þá segir hún árnar litaðar og því ljóst að jökulbráðin sé umtalsverð. Virðist úrkoman ekkert vera að minnka. „Það hefur rignt stöðugt hjá okkur í allan dag,“ segir Þóra, en þessa stundina er aðeins einn gestur á tjaldsvæðinu auk skógræktarhóps sem er í skálanum.

Bandbrjálað veður á Fimmvörðuhálsi

Fyrr í dag ræddi Þóra við skálavörð í Baldvinsskála á Fimmvörðuhálsi og segir hún að staðan þar sé öllu verri en í Básum. Þrátt fyrir úrhellið í Básum sé þar ekki rok, en uppi á hálsinum sé bæði úrhelli og mjög hvasst og hafi veðrinu verið lýst sem bandbrjáluðu. Segir hún enga skynsemi í að halda á hálsinn eins og er og biður fólk að bíða með það þangað til veðrinu slotar.

Ágúst Freyr Bjartmarsson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni í Vík, segir í samtali við mbl.is að enn sem komið er hafi Vegagerðin ekki fengið neina tilkynningu um að vatn væri að flæða yfir vegi eða hafa áhrif á færð, annað en í Þórsmörk og á Syðra Fjallabaki, en að þar á bæ yrðu menn á vaktinni í kvöld og nótt.

Stórir pollar hafa myndast víða í Básum í úrhellinu.
Stórir pollar hafa myndast víða í Básum í úrhellinu. Ljósmynd/Þóra Björg Ragnarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert