Spurning hvort menn séu traustsins verðir

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir það á ábyrgð rekstraraðila að tryggja …
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir það á ábyrgð rekstraraðila að tryggja að tveggja metra reglu geti verið fylgt inni á stöðunum. Kristinn Magnússon

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir að menn hafi „lent pínulítið á vegg“ með þá hugsjón í gær að hægt væri að hefta útbreiðslu kórónuveirufaraldursins hér á landi með góðfúslegri samvinnu allra, þegar lögreglumenn á ferð um miðbæinn voru komnir í þá stöðu að þeir treystu sér ekki inn á ákveðna veitingastaði sökum mannþröngar.

„Það er augljóst að þegar þéttleikinn er orðinn það mikill að lögreglumenn telja öryggi sínu ógnað með því að fara inn á staðinn að þá er eitthvað að þar,“ segir Víðir.

Ábyrgð rekstraraðila

Tveggja metra reglan, sem er þessa stundina skyldubundin samkvæmt lögum, var látin lönd og leið á þessum stöðum, svo sem því mun einnig farið á sumum líkamsræktarstöðvum, eins og Víðir hefur sagt að lögreglan hafi fengið ábendingar um. Víðir segir ljóst að það sé ábyrgð rekstraraðila að tryggja að aðstæður séu þannig á þjónustustöðum að hægt sé að virða tveggja metra regluna.

Sólarsæla í júlí, þegar tveggja metra reglan var ekki regla …
Sólarsæla í júlí, þegar tveggja metra reglan var ekki regla heldur viðmið. Það er liðin tíð. Kristinn Magnússon

Um líkamsræktarstöðvarnar segir Víðir: „Við höfum ekki farið í eftirlit á þessa staði en við höfum fengið aðeins af tilkynningum um það að það sé sett algerlega í hendur á viðskiptavinunum að þrífa og sótthreinsa. Það er áhyggjuefni af því að fólk virðist gleyma sér stundum með það að þrífa eftir sig vélarnar. Þannig að við hvetjum rekstraraðila líkamsræktarstöðvanna til að vanda sig í þessu.

Við fórum af stað inn í þær takmarkanir sem nú gilda í ljósi umræðunnar sem við höfum átt bæði við veitingamenn, sem töluðu mjög mikið um að þeir vildu að við treystum þeim, og rekstraraðilar líkamsræktarstöðvanna töluðu líka um að þeir vildu að við treystum þeim. Við gerðum það núna og ég vona bara að þeir séu traustsins verðir,“ segir Víðir.

Tveggja metra reglur í heimapartíum

Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að lögreglan myndi héðan af nýta þá heimild sem hún hefur til að sekta staði sem tryggðu ekki að tveggja metra reglunni væri fylgt. 

Þegar skemmti- og veitingastöðunum sleppir er haldið í heimahús og víða um land tekur slíkur fögnuður völdin hverja helgi. Víðir segir að þar gildi tveggja metra reglan ekki síður: „Við höfum ekki verið með neinar sérstakar reglur um heimapartí en þessi tveggja metra regla gildir alls staðar. Líka í heimapartíum. Það er engar undanþágur á henni. Fólk sem býr ekki saman skal virða tveggja metra regluna.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert