Gerðu allt sem þau gátu til að fá tækin sem fyrst

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir kannast ekki við það sem Kári Stefánsson, …
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir kannast ekki við það sem Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, skrifaði um seinagang heilbrigðiskerfisins í grein sinni. Ljósmynd/Lögreglan

„Það var bið eftir þessum tækjum út um allan heim og það stóð ekki á spítalanum eða yfirvöldum að kaupa tækin. Það var biðröð eftir þeim,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir spurður um ummæli Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar.

Kári skrifaði grein sem birtist á Vísi í dag að strax í byrjun mars á þessu ári hefði verið ljóst að heilbrigðiskerfið væri vanbúið til þess að skima eftir kórónuveirunni í íslensku samfélagi og að heilbrigðiskerfið hefði ekkert gert til að efla getu sína á því sviði.

„Það pantaði til dæmis ekki þau tæki sem voru fáanleg þá og hefðu getað gert því kleift að höndla verkefnið miklu betur,“ skrifar Kári meðal annars.

Fengu tækin ekki nógu hratt

Þórólfur telur aftur á móti að sýkla- og veirufræðideild Landspítalans hafi gert ýmislegt til að auka getu sýna og segist ekki vita til þess að hægt hefði verið að panta tækin fyrr en gert var.

„Ég held að veirufræðideildin hafi verið að gera ýmislegt til að auka sína getu en það var þeim annmörkum háð að þau fengu þessi tæki ekki nógu hratt. En hvort að þau hefðu getað farið hraðar í þetta á öðrum sviðum það skal ég ekki segja til um,“ segir Þórólfur.

Hefði verið hægt að panta tækin fyrr?

„Ekki svo ég viti til. Ég hef aldrei heyrt að þau hefðu getað gert það. Þau voru að gera allt sem þau gátu til þess að fá þessi tæki eins fljótt og hægt var. Ég veit ekkert hvort að þetta eigi við rök að styðjast – veirudeildin verður að svara því,“ bætir Þórólfur við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert