Heilbrigðiskerfið gerði ekkert til að efla getuna

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að fyrirtækið hafi haft …
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að fyrirtækið hafi haft frumkvæði að því að taka þátt í skimunum þar sem heilbrigðiskerfið hafi ekki búið yfir getunni til þess. Mynd/mbl.is

Það smit sem barst hingað til lands og leiddi til stórrar hópsýkingar kom ekki frá „öruggu löndunum” svokölluðu. Það smit er með mynstur stökkbreytinga sem er mjög sjaldgæft og getur ekki hafa komið frá einstaklingi sem hingað kom frá landi sem er undanþegið skimunum.

Þetta skrifar Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í grein sem birtist á Vísi þar sem hann svarar Ólafi Haukssyni almannatengli sem skrifaði færslu á Facebook-síðuna Bakland ferðaþjónustunnar.

Staðan sé afleiðing af skapsveiflum Kára

Þar heldur Ólafur því fram og ýjar að því að skapsveiflur Kára hafi orðið til þess að Íslensk erfðagreining hætti að skima á landamærum með viku fyrirvara og það hafi leitt til þess að Danmörku, Noregi, Finnlandi og Þýskalandi hafi verið bætt á listann yfir örugg lönd. Afleiðingarnar hafi verið þær að fleiri smitaðir ferðamenn, íslenskir sem erlendir, hafi sloppið inn í landið og smitað út frá sér.

„Hann[Kári] móðgaðist, með þeim afleiðingum að hætta varð að skima ferðamenn frá fjórum löndum til að afstýra stórkostlegum vandræðum. Núna sitjum við uppi með afleiðingarnar af þessum skapsveiflum forstjórans og hans tillaga er að loka landinu,“ skrifar Ólafur.

Ljóst í byrjun að heilbrigðiskerfið bjó ekki yfir getu

Kári fer yfir röksemdir Ólafs í grein sinni og fer yfir það hvernig aðkoma Íslenskrar erfðagreiningar að verkefninu kom til. Segir hann að það hafi verið fyrir frumkvæði fyrirtækisins „vegna þess að heilbrigðiskerfið okkar bjó ekki yfir getu til að sinna verkefninu“.

„Strax í byrjun mars var ljóst að heilbrigðiskerfið væri vanbúið til þess að skima eftir veirunni en gerði ekkert til þess að efla getu sína á því sviði. Það pantaði til dæmis ekki þau tæki sem voru fáanleg þá og hefðu getað gert því kleift að höndla verkefnið miklu betur og svo sannarlega að taka við skimun á landamærum þann 15. júní,“ skrifar Kári.

Landspítalanum afhent það sem þurfti til að taka við

Þá segir hann að þrátt fyrir að Íslensk erfðagreining hafi vanrækt dagvinnu sína í meira en þrjá mánuði, til að skima fyrir veirunni hér á landi, hafi fyrirtækið engu að síður tekið að sér að byrja skimunina á landamærunum og sjá alfarið um hana í tvær vikur og svo hjálpað Landspítalanum að taka við henni með því að gefa „heimasmíðaðan hugbúnað“ og þjálfa átján starfsmenn.

„Við afhentum Landspítalanum það sem hann þurfti til þess að sinna því hlutverki sem honum var ætlað en ekki okkur. Við höfum hins vegar haldið áfram að raðgreina veiruna úr öllum sem greinast með hana vegna þess að getan til þess að gera það leynist ekki annars staðar í landinu. Raðgreiningin hefur reynst nauðsynleg til þess að rekja smit,“ skrifar Kári jafnframt.

Kári bendir á að skimunarverkefnið hafi gengið vel þrátt fyrir að nokkrir sýktir einstaklingar hafi sloppið í gegn. Í öllum þeim tilfellum nema einu hafi verið hægt að koma í veg fyrir mikla útbreiðslu.

Smitið kom ekki frá „öruggu“ landi

„Það er smit af veirunni með mynstur stökkbreytinga sem er mjög sjaldgæft og gæti ekki verið frá einu af „öruggu“ löndunum sem eru undanþegin skimun. Sem sagt ÍE hætti ekki skimun á landamærum fyrr en hún var búin að sjá til þess að Landspítalinn gæti tekið við að skima í sama magni og af jafn miklum gæðum,“ bætir hann við.

Kári skrifar að hann hafi það á tilfinningunni að Ólafur hafi reiðst þegar Kári benti á það í útvarpsþættinum Sprengisandi á sunnudaginn sl. að árangursríkasta leiðin til að fyrirbyggja frekara smit væri kannski sú að „loka“ landinu.

Hissa á að hann sé ekki sakaður um að hafa skapað veiruna

Þá segir hann það ekki ólíklegt að Ólafi sé nokk sama um staðreyndir málsins því að um leið og Kári hafi minnst á þann möguleika hafi hann verið orðinn „óvinur og eðlilegt og sjálfsagt að snúa því sem ég hef tekið þátt í til þess að stemma stigu við Covid-19 upp í andhverfu sína“.

„Ég er satt að segja dálítið hissa á því að hann hafi ekki sett fram þá kenningu að ég hefði látið Íslenska erfðagreiningu búa til kórónuveiruna og spúa henni yfir íslenskt samfélag til þess eins að skaða ferðaþjónustuna,“ bætir Kári við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert