40% forðast búningsklefa

mbl.is/Kristinn Magnússon

Tæplega þriðjungur hinsegin nemenda hafa verið áreitt munnlega vegna kynhneigðar sinnar og rúmlega fjórðungur vegna kyntjáningar sinnar. Þetta kemur fram í könnun á líðan hinsegin ungmenna í skólaumhverfi á Íslandi, sem gerð var af Samtökunum 78.

Í skýrslunni segir að það séu ýmsar ástæður fyrir því að skólinn geti verið staður þar sem hinsegin ungmenni finna til óöryggis. Þriðjungur nemenda greindi frá því að finna til óöryggis í skólanum vegna kynhneigðar sinnar, og fimmtungur fann til óöryggis vegna kyntjáningar sinnar.

Voru þátttakendur hinsegin ungmenni á aldrinum 13 til 20 ára og voru nemendur í grun- eða framhaldsskólum á Íslandi skólaárið 2016/17.

Einn af hverjum 20 orðið fyrir líkamsárás

Um fjórðungur svarenda sagðist hafa skrópað í skólann í það minnsta kosti einn dag vegna óþæginda eða óöryggis. Meira en 40% svarenda sagðist forðast búningsklefa og þriðjungur forðast leikfimitíma vegna óöryggis.

Þegar litið er til líkamlegrar áreiti kemur í ljós að einn af 12,6% nemenda höfðu verið áreitt líkamlega vegna kynhneigðar sinnar, 6,2% vegna kyngervis og 3,4% vegna kyntjáningar sinnar. Einn af hverjum tuttugu hinsegin nemenda urðu fyrir líkamsárás í skólanum vegna einhverra persónueinkenna.

Í skýrslunni segir að skýr stefna gegn einelti, áreitni og árásum hjálpi starfsfólki að bregðast rétt við ofbeldi í skólum, auk þess að vera uppspretta upplýsinga fyrir nemendur um réttindi sín þegar kemur að öruggu námi og veitt leiðbeiningar um hvernig eigi að bera sig við að tilkynna ofbeldisatvik.

„Þó geta slíkar stefnur verið ófullnægjandi fyrir hinsegin nemendur ef ekkert er tiltekið í þeim um ofbeldi sem sérstaklega er beint gegn hinsegin fólki,“ segir í skýrslunni.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert