Atvinnuleysi fjárhagslegt og félagslegt áfall

Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Drífa Snædal, forseti ASÍ. mbl.is/Ófeigur

„Að vera atvinnulaus er fjárhagslegt og félagslegt áfall. Áhyggjur af framfærslu, skert sjálfstraust því maður er ekki að „standa sig“, töpuð tengsl við vinnufélaga og það að detta úr rútínu í daglegu lífi reynist mörgum afar erfitt og er ekki hlutskipti sem fólk almennt velur sér.“

Þetta skrifar Drífa Snædal, forseti ASÍ, í vikulegum pistli sínum þar sem hún segir að næsta verkefni stéttarfélaganna sé að hækka atvinnuleysistryggingar.

Grunnatvinnuleysisbætur í dag eru 289.510 kr. á mánuði, það þýðir um 240 þúsund kr. útborgaðar. Að auki fá atvinnuleitendur 11.580 krónur með hverju barni undir 18 ára aldri. Í þrjá mánuði fær fólk tekjutengdar atvinnuleysisbætur (70% af meðaltali heildarlauna) þó að hámarki 456.404 kr. á mánuði,“ skrifar Drífa og bætir við að þetta sé veruleiki of marga en í júní reiddu 16.165 einstaklingar sig á atvinnuleysisbætur. Enn fremur muni atvinnulausum líklega fjölga í haust.

Ég ætla að endurtaka þetta: Að vera atvinnulaus er ekki hlutskipti sem fólk velur sér. Ég mun halda áfram að endurtaka þetta þangað til hugmyndum um annað er útrýmt. Að halda fólki sem missir vinnuna í fátæktargildru er ómannúðlegt. Það er skaðlegt fyrir einstaklinga sem lenda í slíku og býr til meiri samfélagleg og efnahagsleg vandamál en við glímum við nú þegar. Þess vegna er nauðsynlegt að hækka útgreiddar atvinnuleysisbætur og lengja tímabilið þar sem fólk fær tekjutengdar bætur,“ skrifar Drífa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert