Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lætur af störfum

Þórólfur Halldórsson lætur af störfum um áramótin.
Þórólfur Halldórsson lætur af störfum um áramótin.

Þórólfur Halldórsson, sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, mun láta af störfum um næstu áramót að eigin ósk en staða embættisins verður að öllum líkindum auglýst í september.

„Ég hef verið að hugsa þetta í einhvern tíma og sem betur fer getur maður tekið ákvarðanir fyrir sjálfan sig,“ segir Þórólfur. Hann segist vonast til þess að dómsmálaráðuneytið geti fjármagnað embættið að fullu á næsta ári.

„Þetta er búið að vera sérstök staða hérna,“ segir hann. 

Hann hefur ekki ákveðið hvað tekur við en ætlar þó að leggja rækt við áhugamál á borð við skógrækt.

„Ég er kominn í mikla skógrækt og það er stórt verkefni að planta skógi yfir 170 hektara. Ég byrjaði á því í fyrra og gróðursetningin er býsna góð á þessu ári. Þetta er bara skemmtilegt verkefni,“ segir hann. 

Nokkrar breytingar standa yfir á skipulagi embættisins en ráðist hefur verið í að innleiða rafræna þjónustu á ýmsum sviðum þess, til að mynda með stafrænum þinglýsingum og  ökuskírteinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert