Færsla Helgu Bjargar „neyðarviðbragð“

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Helga Björg Ragnarsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu borgarstjóra, segir að færsla sem hún birti á Facebook-síðu sinni vegna deilu sinnar við Vigdísi Hauksdóttur, borgarfulltrúa Miðflokksins, hafi verið neyðarviðbragð. Í færslunni kemur Helga á framfæri sjónarmiðum sínum á málinu.

„Undanfarin rúm tvö ár hafa vægast sagt verið óvanaleg þar sem borgarfulltrúi Miðflokksins hefur ítrekað og nánast stöðugt ráðist að mér með ásökunum sem hafa gróflega vegið að æru minni og starfsheiðri,“ skrifar Helga.

Helga Björg hefur sakað Vigdísi um einelti, og Vígdís hefur einnig kvartað vegna Helgu Bjargar. Á fundi borgarráðs á fimmtudag sagði Vigdís að Helga hafi brotið á sér með lygum, óheiðarleika og upplognum sökum. Helga Björg brást við orðum Vigdísar í færslu sinni.

Önnur röddin hafi skilgreint málið

Hún sakar Vigdísi um að „setja fram staðlausar fullyrðingar og endurtaka þær nógu oft til að ljá þær sannleiksáru,“ og að hún hafi beitt þeirri aðferð í umfjöllun sinni um deilur þeirra.

„Þetta var neyðarviðbragð,“ segir Helga Björg um færslu sína í samtali við mbl.is. „Ég var komin út í horn og hafði engin önnur úrræði.“

Hún segir að hún hafi upprunalega brugðist við með því að setja fram formlega kvartanir og óskað eftir viðbrögðum, en ekki haft erindi sem erfiði.

„En í þetta skipti er ég hreinlega að koma á framfæri sjónarmiðum þar sem það er aðeins önnur röddin sem skilgreinir þetta mál.“

Helga Björg segir í færslunni að hún geti ekki setið þögul undir árásum Vigdísar „því þetta snýst, því miður, ekki bara um mig. Ef svona pólitík fær að virka óáreitt og kerfið á engin svör við henni þá óttast ég að það geti verið byrjunin á því sem koma skal.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert