Þeir níu ráðherrar ríkisstjórnarinnar sem sendir voru í sýnatöku og heimasmitgát fara í síðari sýnatöku af tveimur í dag. Fyrri sýnataka ráðherranna reyndist neikvæð í öllum tilfellum.
Meðan á ríkisstjórnarfundi stóð á föstudaginn sl. bárust þær fréttir að allir ráðherrar sem tóku þátt í vinnufundi ríkisstjórnarinnar á Suðurlandi 18. og 19. ágúst þyrftu að fara í tvöfalda sýnatöku og viðhafa smitgát á milli eftir að hafa verið á Hótel Rangá þar sem nokkrir einstaklingar sem greindust smitaðir af kórónuveirunni höfðu verið þar.
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar teljast til ytri hrings hins mögulega smithóps og eru því ekki hluti þess hóps sem auknar líkur eru á að hafi verið útsettur fyrir smiti. Tveir ráðherrar snæddu ekki á Hótel Rangá, heilbrigðisráðherra og félagsmálaráðherra, og þurfa því ekki að undirgangast ráðstafanirnar.
Róbert Marshall, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, segir í samtali við mbl.is að ráðherrarnir fari í sýnatöku í dag hver á sínum forsendum og á sínum tíma og að niðurstöður úr þeim verði að öllum líkindum gerðar opinberar þegar þær liggja allar fyrir.
Hann segir ráðherrana hafa haft hægt um sig síðan á föstudag, allir séu á sínum heimastöðvum og sinni vinnu þaðan.
Að minnsta kosti einn ráðherra er búinn að fara í síðari sýnatöku í dag en það var Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sem deildi því með fylgjendum sínum á Instagram. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sýndi sínum fylgjendum aftur á móti í gær hversu mikið fjör hún hefur í smitgátinni.