Andlát: Brynjólfur Gíslason, fv. sóknarprestur í Stafholti

Brynjólfur Gíslason.
Brynjólfur Gíslason.

Brynjólfur Gíslason, fyrrverandi sóknarprestur í Stafholti í Borgarfirði, lést sl. mánudag, 82 ára að aldri.

Brynjólfur var fæddur 26. desember 1938 á Kirkjubæjarklaustri á Síðu, sonur hjónanna Gísla Brynjólfssonar, prests og prófasts þar og síðar fulltrúa í landbúnaðarráðuneytinu, og Ástu Þóru Valdimarsdóttur húsfreyju.

Brynjólfur lauk embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands árið 1968. Áður starfaði hann sem kennari við Gagnfræðaskólann í Keflavík, Gagnfræðaskólann við Lindargötu og Gagnfræðaskóla Austurbæjar og var um tíma blaðamaður á Vísi. Hann var í tvö ár framkvæmdastjóri félagasamtakanna Verndar eða þar til hann var vígður til Stafholtsprestakalls árið 1969. Hann þjónaði í prestakallinu í tæplega fjóra áratugi, lét af störfum fyrir aldurs sakir 2008.

Brynjólfur var með búskap í Stafholti og var stundakennari við Varmalandsskóla og Hússtjórnarskólann á Varmalandi og fleiri skóla. Hann var fréttaritari Morgunblaðsins í Borgarfirði í mörg ár.

Brynjólfur var virkur í félagsmálum, var formaður Ungmennafélags Stafholtstungna, í skólanefndum Varmalandsskóla og Hússtjórnarskólans á Varmalandi, formaður Sjálfstæðisfélags Mýrasýslu og í stjórn kjördæmisráðs, forseti Rótarýklúbbs Borgarness og endurskoðandi Kaupfélags Borgfirðinga, auk þess að vera í ritnefnd Borgfirðingabókar.

Eftirlifandi eiginkona Brynjólfs er Áslaug Pálsdóttir, húsfeyja og fyrrverandi leikskólastarfsmaður, frá Litlu-Heiði í Mýrdal. Þau hjónin hafa búið í Borgarnesi frá árinu 2008.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert