Hvetur fólk til að tína það sem það getur

Sveinn Rúnar Hauksson, læknir og berjaáhugamaður.
Sveinn Rúnar Hauksson, læknir og berjaáhugamaður. mbl.is

„Ég man varla eftir annarri eins sprettu eins og núna,“ segir Sveinn Rúnar Hauksson, læknir og berjaáhugamaður, í samtali við mbl.is.

„Uppskeran hefur verið góð fyrir þá sem hafa farið í berjamó á vestanverðu landinu sér í lagi, bæði á Vestfjörðum og víðar. Það hefur almennt verið einstaklega góð spretta og gott veðurfar líka,“ segir Sveinn. Hæfileg blanda hafi verið af hlýju og raka, og mikið sé af óskemmdum, vel þroskuðum og ótíndum berjum.

Þegar mbl.is náði tali af Sveini var hann staddur í berjamó í Borgarfirði að tína aðalbláber. „Þetta er dásamlegur dagur fyrir berjatínslu,“ segir Sveinn. „Það er verst að það skuli ekki vera fleira fólk. Þau kalla á það að þeim sé bjargað frá kuldabola, blessuð berin.“

Hann segir að berjauppskeran í ár hafi verið afar góð, og sérstaklega mikil breyting hafi orðið á henni síðan í fyrra. „Það var út af fyrir sig gott veður í fyrrasumar, en við fengum enga vætu. Það er sennilega aðalástæðan fyrir því að það varð berjabrestur á vestanverðu landinu í fyrra.“

Góð spretta hefur verið á Vesturlandi í ár.
Góð spretta hefur verið á Vesturlandi í ár. mbl.is/Ómar

Berjatínslutíminn er nú senn á enda. Næturfrostin munu á endanum ná upp í berjabrekkurnar og Sveinn segir að stundum sé erfitt að sætta sig við það.

„Þetta á eflaust eftir að verða eitt af þeim haustum sem maður freistast til að halda áfram að laumast í berjamó þó að berjafríið sé búið. Þótt ég sé kominn aftur til vinnu nota ég hverja smugu til að fara eftir vinnu austur í Grafning.“

Sveinn hvetur þá sem tök hafa á til að fara í berjamó og tína það sem þeir geta. „Það er ekki of seint að fara í berjamó. Það er um að gera að nota þá daga sem enn gefast, og það verða einhverjir dagar enn.“

mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert