Rannsókn ÍE með þeim betri í heiminum í dag

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Greint var frá því í gær að niðurstöður breskra og kínverskra mótefnarannsókna sýndu fram á að mótefni í þeim sem smitast af kórónuveirunni og batnar, geti fjarað út eftir um mánuð.

Er þetta sagt stangast á við rannsóknir Íslenskrar erfðagreiningar sem birtar voru nýverið, sem eru taldar sanna að mótefni gegn kórónuveirunni fjari ekki út, að minnsta kosti ekki á fyrstu fjórum mánuðum eftir smit.

„Niðurstöður þessara rannsókna má ekki taka of alvarlega. Þegar rannsóknir af þessum skala eru gerðar, þar sem einungis tugir einstaklinga eru rannsakaðir í einu, þá getur fólki ekki verið mikil alvara,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í samtali við mbl.is.

Engin rannsókn hafin yfir gagnrýni

„Engin rannsókn er hafin yfir gagnrýni, hvorki okkar rannsóknir né rannsóknir annarra. Hins vegar er okkar rannsókn ritrýnd rannsókn sem birtist í virtu tímariti, New England Journal of Medicine, og henni fylgdi meira að segja ritstjórnargrein.

Við rannsökuðum upp undir 30 þúsund manns og sýni úr öllum þeim sem veikst hafa hér á landi. Við gerðum því bestu og marktækustu rannsókn sem fyrirfinnst í heiminum í dag, eins og staðan er núna. Þessar rannsóknir sem þú vísar til og birtust í The Telegraph geta varla hafa birst í tímaritum sem eru hátt skrifuð.“

Meirihluti vísindagreina ómarktækur

Kári segir að meirihluti rannsókna og vísindagreina sem birtar hafa verið síðan kórónuveiran skaut upp kollinum sé ómarktækur.

„Síðan þessi veira skaut upp kollinum, fyrir um átta mánuðum síðan, hafa birst um 50 þúsund rannsóknir og vísindagreinar þar sem fólk reynir að skilja og átta sig á þessari veiru. Stórum meirihluta þessara greina og rannsókna verðum við hins vegar að taka með þó nokkuð miklum fyrirvara,“ segir Kári.

„Við erum öll að reyna að skilja þessa veiru og til þess verðum við að beita vönduðum og faglegum vinnubrögðum, líkt og við höfum gert hjá Íslenskri erfðagreiningu. Ég er viss um að okkar rannsóknir standist tímans tönn.“

Rannsóknir halda áfram

Spurður að því hvernig gangi með framhaldsrannsóknir Íslenskrar erfðagreiningar á mótefnum gegn kórónuveirunni segir Kári að gangi vel. Greint var frá því nýverið á mbl.is að Íslensk erfðagreining hygðist rannsaka frávik í mótefnarannsókn sem snýr að getu ónæmiskerfis sumra til þess að berjast gegn kórónuveirunni með öðrum hætti en myndun eiginlegs mótefnis.

„Það tók eðlilega svolítinn tíma að koma rannsókninni af stað en þetta gengur ansi vel og við vonumst til að geta kynnt niðurstöður í haust.“

Samhliða því segir Kári að langtímaaukaverkanir af völdum kórónuveirunnar verði rannsakaðar.

„Við sjáum fréttir af því að fólk er að kvarta undan ýmsum einkennum löngu eftir að það losnar úr einangrun. Þetta eru einkenni á borð við síþreytu, verki og annað sem við ætlum okkur að rannsaka.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert