Nýtt hlaðvarp um konur í nýsköpun

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra ásamt Ölmu …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra ásamt Ölmu Dóru Ríkarðsdóttir, stjórnanda hlaðvarpsins Konur í nýsköpun. Ljósmynd/Aðsend

Á mánudag hóf göngu sína nýtt hlaðvarp, Konur í nýsköpun. Með stjórn hlaðvarpsins fer Alma Dóra Ríkarðsdóttir, viðskiptafræðingur og meistaranemi í kynjafræði, og mun hún í þáttunum taka viðtöl við áhrifakonur í íslenskri nýsköpun. Fyrsti gestur Ölmu er Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. 

Alma Dóra réðst í gerð þáttarins vegna rannsóknar hennar hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu þar sem hún kannar valdeflingu kvenna til nýsköpunar út frá styrkveitingu nýsköpunarráðuneytisins. 

Skemmtilegt ferli

„Ég hafði því samband við 16 konur sem allar tengjast nýsköpun á einn eða annan hátt og bauð þeim í viðtöl. Þetta hefur verið skemmtilegt ferli og gaman að kynnast þessum framúrskarandi konum. Þeirra innsýn í nýsköpunarumhverfið á Íslandi hefur verið ómetanlegt fyrir rannsóknina mína," segir Alma í tilkynningu til fjölmiðla. 

Hlaðvarpið mun koma út einu sinni í viku á mánudögum og eru þættirnir allir um hálftími að lengd. 

Hægt er að nálgast hlaðvarpið á hlaðvarpsvef mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert