Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og embætti landlæknis boða til upplýsingafundar klukkan 14.
Þar munu Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn fara yfir stöðu mála varðandi framgang COVID-19-faraldursins hér á landi.
„Það er að koma betur í ljós að þungamiðjan og ræturnar virðast vera á þessum stöðum, alla vega í þessum faraldri sem er núna,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is í gær um aukinn fjölda kórónuveirusmita hérlendis. Staðirnir sem hann á við eru skemmtistaðir og krár en þeim hefur nú verið lokað yfir helgina á höfuðborgarsvæðinu.
21 smit greindist innanlands í fyrradag, 19 á miðvikudag og 13 á þriðjudag. Tveir liggja nú á sjúkrahúsi en þeir eru þó ekki alvarlega veikir og hvorugur á gjörgæslu. Um er að ræða tvo eldri einstaklinga.