Dreifing nektarmynda verði refsiverð

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur lagt frumvarpið til umsagnar.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur lagt frumvarpið til umsagnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dómsmálaráðherra hefur nú birt frumvarp um kynferðislega friðhelgi á vef Samráðsgáttar, þar sem lagt er til að dreifing, fölsun eða hótanir um dreifingu ljósmynda af kynferðislegri háttsemi annarra geti varðað allt að fjögurra ára fangelsisvist. 

Í íslenskum rétti er ekki að finna sérstakt ákvæði um heimildarlausa dreifingu kynferðislegs efnis í gegnum netið eða með öðrum hætti. Mál sem varða brot gegn kynferðislegri friðhelgi, hvort sem um er að ræða stafræna, hliðræna, myndræna eða á textaformi, og hafa farið í gegnum réttarvörslukerfið hafa flest verið heimfærð undir ákvæði 209.gr. hegningarlaga um blygðunarsemi og 199. gr. hgl. um kynferðislega áreitni. 

Kjarni breytinganna er tillaga þess efnis að ný grein 199. a. laganna orðast svo:

„Hver sem í heimildarleysi útbýr, aflar sér, dreifir eða birtir ljósmynd, kvikmynd, texta eða sambærilegt efni, af eða um nekt eða kynferðislega háttsemi annars og sanngjarnt er og eðlilegt að fara eigi með sem einkamál, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum, en 4 árum sé brotið stórfellt.

Sömu refsingu skal sá sæta sem hótar háttsemi sem greinir í 1. mgr., enda er hótunin til þess fallin að vekja ugg hjá þeim sem hún beinist að. Sömu refsingu skal sá sæta sem falsar um aðra efni sem greinir í 1. mgr. Sé brot framið af gáleysi varðar það sektum eða fangelsi í allt að 2 ári. Sé háttsemi sem greinir í 1. mgr. réttlætanleg með vísan til almanna- eða einkahagsmuna er hún refsilaus.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert