Söfnuðu 25 milljónum fyrir krabbameinssjúk börn

Mikil gleðistund var í Hörpu í dag þegar styrkarfélagi krabbameinssjúkra …
Mikil gleðistund var í Hörpu í dag þegar styrkarfélagi krabbameinssjúkra barna var afhent söfnunarféð. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Íslenskt hjólreiðafólk afhenti í dag Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna söfnunarfé upp á tæpar 26 milljónir við hátíðlega athöfn. Söfnunin er hluti af Team Rynkeby, samevrópsku góðgerðarverkefni þar sem hjólreiðafólk um alla Evrópu safnar áheitum fyrir gott málefni. Íslenski hópurinn hefur nú safnað fyrir styrktarfélagið síðan 2017 og hafa rúmlega 70 milljónir króna safnast til styrkar félaginu síðan.

„Team Rynkeby er frábært verkefni sem hefur á örfáum árum fest sig í sessi sem langstærsti styrktaraðili SKB. Fjármagn til rannsókna er alltaf af skornum skammti og því er það er sérstakt ánægjuefni að félagið geti styrkt rannsóknir í þágu barna með krabbamein og aðstandenda þeirra fyrir framlag frá Team Rynkeby.

Á bak við svona verkefni eru magnaðir einstaklingar og við stöndum í mikilli þakkarskuld við þá fyrir að leggja á sig ómælt erfiði, tíma og fyrirhöfn. Við tökum enn eitt árið auðmjúk og þakklát á móti afrakstri verkefnisins og óskum nýju Team Rynkeby-liði velfarnaðar, árangurs og góðrar skemmtunar,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, formaður SKB.

Frá athöfninni í dag.
Frá athöfninni í dag. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Hjólreiðafólk af öllum getustigum

Elvar Jónsson segir að að hjólreiðafólk af öllum getustigum hafi tekið þátt í verkefninu fyrir Íslands hönd undanfarin ár. Verkefnið hefur verið haldið síðan 2002 og hefur vaxið hratt síðustu ár en nú keppa um 57 lið frá hinum ýmsu löndum Evrópu. Vanalega hjólar íslenski hópurinn frá París til Kaupmannahafnar en vegna kórónuiveirunnar hafi einungis komið í mál að hjóla innanlands í staðinn.

„Við hjóluðum bara hringveginn með nokkrum völdum dagleiðum,“ segir Elvar Jónsson einn aðstandenda íslenska hópsins. „Við forðuðumst að vera á þjóðvegi eitt þannig við fórum svo óhefðbundinn hringveg, ef svo má að orði komast.“

Hann segir lið næsta árs sé valið í september á ári hverju og að fólkið sé jafn mismunandi og það er margt, en um 40 hjólreiðamenn tilheyra íslenska hópnum ásamt 10 aðstoðarmönnum.

„Já, við erum með fólk sem er allt frá því að vera mjög vant yfir í fólk sem aldrei hefur sest á götuhjól. Þannig þetta er mjög gaman og það er sannur heiður að fá að láta gott af sér leiða með þessum hætti.“

Selja auglýsingar á búninga liðsins

„Við höfum alltaf toppað okkur ár hvert og þess vegna er gaman að hafa náð því aftur,“ segir Elvar en 25.727.341 krónur söfnuðust í ár. Árið 2017 söfnuðust tæpar 9,5 milljónir, um 16,5 milljónir árið eftir og um 23,5 milljónir í fyrra.

Frá athöfninni í dag.
Frá athöfninni í dag. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

„Stærstu áheitin koma frá fyrirtækjum sem kaupa auglýsingar á liðsbúningum okkar. Svo eru þar að auki góðviljuð fyrirtæki og einstaklingar sem styrkja okkur líka.“

Fara vonandi út á næsta ári

„Við vonum auðvitað að við komumst út á næsta ári til þess að hjóla þó svo að það hafi verið gaman að hjóla hérna heima á Íslandi líka,“ segir Elvar. „Við erum búin að velja í liðið og byrjum því strax að æfa af krafti og erum full tilhlökkunar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert