Þrír í haldi eftir harðan árekstur

Bílarnir tveir skemmdust töluvert og lenti jepplingurinn á öðrum bíl …
Bílarnir tveir skemmdust töluvert og lenti jepplingurinn á öðrum bíl sem skemmdist einnig. Víkurfréttir/Hilmar Bragi

Einn var fluttur á slysadeild í gærkvöldi þegar jepplingur og fólksbifreið skullu saman við Hringbraut í Keflavík. Þrír menn eru í haldi lögreglunnar á Suðurnesjum og er ökumaður jepplingsins talinn hafa verið ölvaður undir stýri. Ökumanni og farþega jepplingsins tókst að skríða út úr bílnum og lagði farþeginn á flótta en ökumaðurinn var fluttur á sjúkrahús eins og fyrr segir.

Að því er fram kemur í frétt Víkurfrétta síðan í gærkvöld segjast vitni hafa séð jepplingin keyra Hringbraut í Keflavík í norðurátt á mikilli ferð. Jepplingurinn keyrði yfir upphækkun á hringtorgi sem stendur á gatnamótum Hringbrautar og Faxabrautar með þeim afleiðingum að hann hófst á loft og hafnaði framan á skutbíl sem stóð á bílastæði við Hringbraut.

Kastaðist nokkra metra

Þá hefur Vísir eftir Sigurbergi Theodórssyni, aðalvarðsstjóra lögrelgunnar á Suðurnesjum, að þrír séu í haldi og að grunur leiki á um að ökumaður jepplingsins hafi verið ölvaður við aksturinn.

Skutbíllinn kastaðist nokkra metra en jepplingurinn valt og hafnaði á öðrum bíl sem skemmdist einnig. Í samtali við Víkurfréttir segist eigandi skutbílsins hafa verið við það að sofna þegar hann hrökk upp við mikinn hávaða og sá bíl sinn gjöreyðilagðan fyrir utan heimili sitt.

Frá vettvangi í gærkvöld.
Frá vettvangi í gærkvöld. Víkurfréttir/Hilmar Bragi

Hávaðinn í líkingu við sprengingu

Íbúi á Brekkubraut, um 100 metra frá slysstað, lýsir því að hann hafi heyrt því sem líktist stórri sprengingu þegar bílarnir skullu saman, slíkur hafi hávaðinn verið.

Fjölmennt lögreglu- og slökkvilið mætti á vettvang skömmu eftir slysið enda bæði lögreglu- og slökkviliðsstöð Reykjasbæjar skammt frá, að því er segir í Víkurfréttum.

Mikið hreinsunarstarf tók við og var Hringbraut lokuð milli Faxabrautar og SKólavegs á meðan rannsókn lögreglu stóð yfir.

Ekki náðist í lögregluna á Suðurnesjum við gerð fréttarinnar.

Uppfært kl. 10.10:

Sigurbergur Theodórsson, aðalvarðstjóri lögreglunnar á Suðurnesjum, staðfesti það í samtali við mbl.is að þrír séu í haldi og að grunur leiki á að um ölvunarakstur hafi verið að ræða. Málið sé til rannsóknar lögreglu og því ekki ástæða að greina meira frá að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert