„Á ég svona marga vini á Akranesi?“

Anton er af mörgum talinn einn dyggasti starfsmaður verslunarinnar.
Anton er af mörgum talinn einn dyggasti starfsmaður verslunarinnar. Ljósmynd/Samsett

Móðir starfsmanns Krónunnar á Akranesi segir son sinn djúpt snortinn eftir að íbúar bæjarins lýstu yfir óánægju sinni með uppsögn starfsmannsins með þeim afleiðingum að hann var endurráðinn. Hann  hefur unnið í fleiri ár hjá Krónunni á Akranesi og er hann af mörgum talinn einn dyggasti starfsmaður verslunarinnar.

„Anton var  djúpt snortinn við að lesa það sem bæjarbúar á Akranesi höfðu um hann að segja,“ segir Anna Bjarnadóttir, móðir Antons Kristjánssonar, í samtali við mbl.is. Hún segir að Antoni hafi verið sagt upp störfum hjá Krónunni í lok ágúst og í kjölfarið boðin helgarvinna vegna skipulagsbreytinga.

Fréttist á facebook

„Bæjarbúar frétta flestir af þessu á facebook síðu bæjarins Ég er íbúi á Akranesi það var íbúi sem póstaði á síðuna hugleiðingu sinni af því henni fannst svo ósanngjarnt að Antoni hefði verið sagt upp og hvort þetta væri sú samfélagslega ábyrgði sem við viljum sjá, þá fór fólk að senda pósta á Krónuna til þess að lýsa yfir óánægju sinni með að Antoni hafi verið sagt upp.“ 

Dröfn Guðmundsdóttir skrifaði umrædda hugleiðingu:

Mikið fannst mér leitt að heyra að Krónan væri búin að segja honum Antoni upp. Hann búinn að vinna þar í mörg ár, líklega lengur en nokkur annar sem þar starfar. Hann er sá sem alltaf er hægt að snúa sér til og spyrja hvar er þetta og hvar er hitt; alldeilis nauðsynlegt í búð þar sem ansi oft er verið að endurskipuleggja hillurnar. Og það er víst ástæðan fyrir uppsögninni, endurskipulagning. Þá þarf að segja upp þeim sem lengst hefur unnið þarna, staðið sig mjög vel í starfi, er duglegur og samviskusamur og alltaf kurteis. Krónan gefur sig út fyrir að vera samfélagslega sinnuð “Við viljum hafa áhrif til góðs og sýna samfélagslega ábyrgð í verki ” og hafa gefið út samfélagsskýrslu til að sýna það. Anton hleypur ekki í hvaða starf sem er og vinnan hans í Krónunni hefur verið honum miklu meira en fjárhagsleg innkoma. Er það svona sem við viljum koma fram við þá sem minna mega sín hér á Akranesi? Er þetta samfélagsleg ábyrgð í verki?

Mannauðsstjórinn hafði samband 

Mannauðsstjóri Krónunnar hafði samband við Önnu, viðurkenndi að mistök hafi orðið og bauð Antoni starfið sitt aftur.

„Anton er með þroskaskerðingu og er því ráðinn á þeim forsendum. Það hefur þó aldrei stoppað hann í sinni vinnu enda elskar hann starf sitt og finnst gaman að hitta fólk og spjalla. Falleg framkoma og ljúfmennska einkennir Anton og það hafa viðskiptavinir Krónunnar fundið,“ segir Anna.

Það geta viðskiptavinir Krónunnar á Akranesi svo sannarlega vottað fyrir en hrósum og heillaóskum rigndi inn á facebooksíðuna Ég er íbúi á Akranesi eftir að vakin var athygli á því að Antoni hefði verið sagt upp störfum. Þá segir í frétt Skagafrétta að vel á annað hundrað manns hafi tjáð sig um málið og margir þeirra hafi sent póst til höfuðstöðva Krónunnar og lýst yfir óánægju sinni.

Kom á framfæri þökkum

Anna segir að sonur sinn hafi spurt er hann sá allar færslurnar á facebook „Á ég virkilega svona marga vini á Akranesi?“ Hún skrifaði ummæli fyrir hönd Antons þar sem þökkum er skilað til þeirra sem studdu við bakið á honum.

„Anton er mjög hrærður yfir öllum þeim stuðningi sem hann hefur fundið fyrir vegna uppsagnar sem hann fékk frá Krónunni.
Vegna færslu sem kom inn á síðuna fór eitthvað af stað í samfélaginu og sá þrýstingur skilaði samtali og var Antoni boðið að halda áfram í vinnunni á sínum forsendum. Anton mun taka vel á móti ykkur í Krónunni. Góðar þakkir til ykkar allra og verið góð við hvort annað,“ 
skrifar Anna.

„Anton er ánægður með að málum hafi lyktað svona og er ég sjálf ánægð með að Krónan hafi séð sóma sinn í því að viðurkenna mistök sín og dregið uppsögnina til baka,“ segir Anna að lokum.

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert