Aukin áhersla lögð á smitstuðulinn

Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við HÍ.
Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við HÍ. Ljósmynd/Lögreglan

Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands, segir að nýtt spálíkan um þróun kórónuveirunnar verði mögulega birt á þriðjudag. Hann segir einnig að nú verði aukin áhersla lögð á smitstuðul veirunnar og túlkanir á honum. Stuðullinn geti gefið góða vísbendningu um þróun faraldursins og hversu vel almenningur gæti að eigin sóttvörnum.

„Við vonumst til þess að gerta birt líkan á þriðjudag, já,“ segir Thor í samtali við mbl.is. Hann segir að fundað verði fyrir hádegi á þriðjudag til þess að ákveða hvort unnt verði að birta líkanið síðar um daginn.

Góð vísbending

Thor segir einnig að aukin áhersla verði lögð á svokallaðan smitstuðul, sem segir til um hversu marga smitaður einstaklingur smitar að meðaltali. Ef stuðulinn er þrír, til að mynda, þá smitar einn einstaklingur þrjá aðra að meðaltali.

„Þetta getur verið góð vísbending um þróun faraldursins rétt eins og spálíkanið. Við viljum halda stuðlinum sem lægstum og þá helst fyrir neðan einn. Það myndi þá þýða að hver og einn smitaði að meðaltali færri en eina manneskju.

Stuðulinn var kominn vel undir eitt stig þarna í lok apríl þegar veiran var í rénun en svo tók hann auðvitað stökk núna um daginn og var alveg upp undir sex.“

Mælir hversu vel við pössum okkur

Thor segir að með því að rýna í smitstuðulinn sé hægt að fá betri innsýn inn í það hversu vel almenningur er að huga að eigin persónubundnu sóttvörnum.

„Ef hver og einn passar sig mjög vel og minnkar þannig líkurnar á því að smita aðra þá auðvitað lækkar smitstuðulinn. Þannig getur stuðullinn verið góður mælikvarði á hversu vel við erum að passa okkur.“

Smitstuðullinn er mikið notaður erlendis við ákvörðun þeirra sóttvarna sem þar eru í gildi. Gott sé að gera slíkt hið sama hér á landi til þess að fá nýtt sjónarhorn á faraldurinn í heild sinni og þróun hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert