Ferðamenn brutu reglur um sóttkví í miðbænum

Laugavegurinn.
Laugavegurinn. mbl.is/​Hari

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af þremur erlendum ferðamönnum á tíunda tímanum í gærkvöldi á veitingahúsi í miðborginni. Ferðamennirnir voru nýkomnir til landsins og áttu að vera í sóttkví.

Fólkið var handtekið og fært á lögreglustöð til skýrslutöku en lögregla var áður búin að hafa afskipti af þeim þar sem tilkynnt var um brot á sóttkví. 

Ferðamennirnir munu eiga flug frá landinu á morgun, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Um einum og hálfum klukkutíma áður, eða um áttaleytið í gærkvöldi, var tilkynnt um ölvaðan mann að stofna til slagsmála á Laugaveginum um áttaleytið í gærkvöldi. Maðurinn reyndist vera erlendur ferðamaður sem var nýkominn til landsins og átti að vera í sóttkví.

Maðurinn var mjög ölvaður og var með dólg við lögreglumenn og neitaði að gefa upp nafn og hafði engin skilríki. Maðurinn er einnig grunaður um brot á sóttkví.  Hann var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Veitingahús með allt á hreinu

Lögreglan tók stöðuna hjá 36 veitingahúsum í austur- og  miðborginni. Allir þeir staðir sem áttu að vera lokaðir vegna sóttvarnalaga reyndust vera lokaðir. Á einum veitingastaðnum í austurborginni voru iðnaðarmenn að störfum en lokað var fyrir rekstur. Staðir sem höfðu heimild fyrir opnun voru með allt á hreinu.

Í Hafnarfirði var farið á sex veitingastaði sem höfðu heimild til að vera opnir og var þar allt til fyrirmyndar. Athugað var með tvo staði sem áttu að vera lokaðir og þar var allt lokað.

Ljósmynd/Lögreglan

Stungu af án þess að borga

Leigubílstjóri var aðstoðaður í Mosfellsbæ á sjötta tímanum í gær. Hann kvaðst hafa ekið þremur mönnum úr miðbænum í hverfi 270 þar sem mennirnir yfirgáfu bifreiðina án þess að greiða ökugjaldið. Lögreglan hafði afskipti af mönnunum, sem verða kærðir fyrir fjársvik.

Umferðardeild var með skipulagt umferðareftirlit frá kl. 20.15 til 22.05 í gærkvöldi við Vífilsstaðaveg. Afskipti voru höfð af 82 ökumönnum og kannað með ástand þeirra og réttindi.  Einn ökumaður er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og tveir ökumenn sýndu áfengisneyslu en voru undir refsimörkum. Þeim var gert að hætta akstri og bifreiðar þeirra kyrrsettar.

Bifreið stöðvuð í Hafnarfirði á þriðja tímanum í nótt. Mikil fíkniefnalykt fannst í bifreiðinni og fundust þar ætluð fíkniefni. Ökumaðurinn, sem er 17 ára, verður kærður fyrir vörslu fíkniefna.  Foreldrum og Barnavernd verður kynnt málið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert