Hitta ekki börnin svo mánuðum skiptir

Afstaða gagnrýnir takmarkanir á heimsóknum fanga í kórónuveirufaraldrinum.
Afstaða gagnrýnir takmarkanir á heimsóknum fanga í kórónuveirufaraldrinum. mbl.is/Árni Sæberg

Ótti og pirringur fer stigvaxandi meðal fjölskyldna fanga í ljósi heimsóknatakmarkana vegna kórónuveirufaraldursins að því er fram kemur í tilkynningu frá Afstöðu, félagi fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun.

„Það eru strangari takmarkanir á heimsóknum í fangelsi en gerist og gengur á öðrum stöðum á Íslandi og á Norðurlöndum. Það er eitt að vera frelsissviptur en síðan fela þessar takmarkanir í sér enn frekari einangrun ofan á það,“ segir Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga.

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga á Íslandi.
Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga á Íslandi. mbl.is/Hari

Hitta ekki börnin svo mánuðum skiptir

Segir hann ástandið hafa þungbær áhrif á aðstandendur og börn fanga. Einum aðsandanda er heimilt að heimsækja fanga og mega börn vera í fylgd en ekki allir fangar vilja að börnin fari inn í fangelsin. Því nýti fangar dagsleyfin til að hitta börnin.

„Það eru engin dagsleyfi í dag svo menn eru kannski ekki búnir að hitta börnin sín í marga mánuði. Þetta leggst þungt á fanga. Auðvitað skiljum við að sóttvarnaraðgerðir eru nauðsynlegar en við teljum að hér sé gengið fulllangt, segir Guðmundur og heldur áfram:

„Við þurfum að finna lausn á þessum vanda. Norðurlöndin hafa verið að því og ég held það se komin tími til þess að við færum þessi mál inn í nútímann og gerum þetta kannski rafrænt. Málið er að það skilja allir í dag hvað einangrun er erfið. En hún er margfalt erfiðari á þessum stað,“ segir hann að lokum. 

Skora á dómsmálaráðherra

Skorar félagið á dómsmálaráðherra að gera ráðstafanir nú þegar vegna innilokunar og einangrunar sem faraldurinn hafi skapað í fangelsum. Segir í fréttatilkynningu frá félaginu að öll leyfi úr fangelsum hafi verið afnumin, heimsóknir ættingja og vina skertar verulega og allur samgangur við ástvini sé í lágmarki.

Segir í niðurlagi tilkynningarinnar:

„Einn almikilvægasti hluti endurhæfingarvistar felst í tækifæri til að vera í tengslum við fjölskyldu og samfélag. Með þeim hætti geta fangar viðhaldið vilja sínum til að koma út sem betri einstaklingar. Nú er hins vegar svo komið að ótti og „pirringur“ magnast daglega innan fjölskyldna fanga. Staðan er óviðunandi og ekkert útlit er fyrir annað en að hún muni versna með degi hverjum.

Afstaða lýsir yfir áhyggjum sínum yfir því að þessar miklu skerðingar sem aðstandendur þurfa nú  að þola, muni hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert