Samtökin '78 segja öllum upp

Húsnæði Samtakanna '78 er jafnan litskrúðugt en samtökin eru hagsmunasamtök …
Húsnæði Samtakanna '78 er jafnan litskrúðugt en samtökin eru hagsmunasamtök hinseginfólks á Íslandi. Mynd/Aðsend

Samtökin '78 hafa sagt öllum fjórum starfsmönnum sínum upp sem og verktökum sem fyrir samtökin starfa. Framkvæmdastjóri félagsins segir um að ræða neyðarúrræði því bæði samningar samtakanna við ríkið og Reykjavíkurborg renna út á sama tíma.

Uppsagnirnar taka gildi að þremur mánuðum liðnum en framkvæmdastjórinn vonar að hægt verði að draga þær til baka náist samningar. Vísir greindi fyrst frá. 

„Þetta er fyrst og fremst gert sem algjört neyðarúrræði. Samningar okkar við Reykjavíkurborg og forsætisráðuneytið renna út á sama tíma. Það hefur ekki gerst í langan tíma. Við ætlum ekki að skuldsetja félagið áfram til félagsfólks. Ég er samt alveg sannfærður um að við munum ná samningum við þessa aðila og ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að ná þeim,“ segir Daníel E. Arnarsson framkvæmdastjóri samtakanna í samtali við mbl.is. 

Örþrifaráð í næfurþunnum fjárhag

Spurður hvort samningarnir séu ekki venjulega endurnýjaðir áður en þeir renni út segir Daníel svo vera. 

„Fjárhagur okkar er það næfurþunnur að við verðum bara að grípa til þessara örþrifaráðs að segja upp starfsfólki.“

Daníel segir að ástæðan sé ekki sú að illa hafi gengið að ná samningum. Samtökin hafi þó verið rekin með nokkrum halla síðustu ár vegna ört vaxandi starfsemi sem samningsaðilar hafi kannski ekki verið nægilega tilbúnir að koma til móts við.

„Það hefur enginn tjáð okkur að við munum ekki fá samninga. Þetta er fyrst og fremst neyðarúrræði. Við tökum hlutverki okkar alvarlega og við erum ekki að reka okkur þannig að við séum að skulda of mikið. Það kemur ekki til greina. Við höfum verið um og yfir núlli en samtökin hafa verið rekin með miklum halla síðustu ár vegna gríðarlegrar aukningar í starfseminni okkar. Við höfum verið að stækka gríðarlega mikið og samningsaðilar okkar hafa kannski ekki komið nægilega til móts við okkur miðað við þessa öru stækkun.“

Þrátt fyrir allt er Daníel bjartsýnn fyrir hönd samtakanna. 

„Þetta eru það mikilvæg samtök og það er bara það mikið af fólki sem reiðir sig á okkur að það getur ekki annað verið en að við eigum mjög blómlegt ár 2021 og ég ætla að gera allt sem í mínu valdi stendur til að tryggja það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert