Í dag stofnuðu sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og ríkið formlega opinbert hlutafélag sem mun halda utan um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu næstu 15 ári í samræmi við samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Þá mun félagið, sem fékk nafnið Betri samgöngur, taka við landareignum frá ríkinu í takti við samgöngusáttmálann.
Heildarfjárfesting verkefnisins er um 120 milljarðar yfir framkvæmdatímabilið, en í því felst uppbygging stofnvega, innviða fyrir borgarlínu, lagningu göngu- og hjólastíga og umferðarstýringu og öryggisaðgerðir.
Meðal þeirra stofnvegaverkefna sem Betri samgöngur munu koma að eru að setja hluta Miklubrautar í stokk, setja hluta Hafnarfjarðarvegar í stokk, uppbyggingu borgarlínu, tengingu Arnarnesvegar við Breiðholtsbraut og breytingu gatnamóta við Bústaðaveg og Reykjanesbraut. Heildarlista yfir stofnvegaverkefnin má sjá neðar í greininni.
Sveitarfélögin eru Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur, Mosfellsbær, Reykjavík og Seltjarnarnes. Stofnsamningurinn var undirritaður af forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra ásamt borgar- og bæjarstjórum sveitarfélaganna.
Ríkið mun eiga 75% í hinu nýja félagi, en sveitarfélögin 25% og mun eignarhluti ráðast af stærð þeirra. Félaginu er ekki ætlað að skila arði og er hluthöfum óheimilt að taka arð út úr félaginu.
Sem hluti af samgöngusáttmálanum afhendir ríkið Betri samgöngum land ríkisins að Keldum og mun félagið sjá um þróun svæðisins í samvinnu við viðeigandi skipulagsyfirvöld með það að markmið að hámarka virði landsins og uppbyggingu þess.
Í tilkynningu vegna stofnunarinnar er haft eftir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að stofnunin sé næsta skrefið í því verkefni sem á að tryggja stórfellda uppbyggingu almenningssamgangna með borgarlínu, auk göngu- og hjólastígum og stofnvegaframkvæmdum. Haft er eftir Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra að hlutverk félagsins sé að ráðast í arðbæra innviðauppbyggingu sem eigi að örva atvinnulífið og slíkt skipti ekki síst sköpum um þessar mundir.
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra segir verkefnið sérstaklega ánægjulegt þar sem „síðustu ár og áratugi hefur ríkt mikið frost í samskiptum ríkis og sveitarfélaga í þessum efnum. Með samgöngusáttmálanum var höggvið á hnútinn og stofnun opinbers félags staðfestir samstöðu okkar og samvinnu síðustu mánuði.“
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að félagið verði ómetanlegt í að þróa höfuðborgarsvæðið hraðar í græna átt.
Stjórn Betri samgangna skipa þau: Árni M. Mathiesen, formaður, Eyjólfur Árni Rafnsson, Guðrún Ögmundsdóttir, Gunnar Einarsson, Ólöf Örvarsdóttir og Hildigunnur Hafsteinsdóttir. Varamenn eru Ármann Kr. Ólafsson og Guðrún Birna Finnsdóttir.
Í samgöngusáttmálanum skuldbatt ríkið sig til að leggja fram 45 milljarða, sveitarfélögin 15 milljarða og þá á sérstök fjármögnun að standa undir 60 milljörðum. Verður sú upphæð fjármögnuð með með endurskoðun gjalda af ökutækjum og umferð í tengslum við orkuskipti eða með beinum framlögum af sölu á eignum ríkisins, svo sem Keldnalandsins.
Gert er ráð fyrir að 52,2 milljarðar fari í stofnvegi, 49,6 milljarðar í innviði borgarlínu og almenningssamgöngur, 8,2 milljarðar í göngu- og hjólastíga, göngubrýr og undirgöng og 7,2 milljarðar í bætta umferðarstýringu og sértækar öryggisaðgerðir. Þá verði þegar í stað ráðist í að innleiða stafræna umferðarstýringu á höfuðborgarsvæðinu.