Gerir alvarlegar athugasemdir við forsíðufrétt

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Hari

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segist gera alvarlegar athugasemdir við forsíðufrétt Morgunblaðsins í dag.

Í fréttinni er fullyrt að Lilja hafi gert nýj­an þjón­ustu­samn­ing við Rík­is­út­varpið ohf. (Rúv.), en sam­kvæmt hon­um séu tekj­ur stofn­un­ar­inn­ar tryggðar í bak og fyr­ir og engu breytt um um­svif Rúv. á aug­lýs­inga­markaði.

„Gríðarlegr­ar óánægju gæt­ir með það hjá sjálf­stæðismönn­um á þingi, sem segja að Lilja hafi svikið lof­orð um sam­ráð við gerð samn­ings­ins. Þeir segja að frum­varp henn­ar um styrki til einka­rek­inna fjöl­miðla sé „steindautt“ fyr­ir vikið,“ segir í fréttinni.

Þjónustusamningurinn sé ekki fullgerður

Lilja gerir athugasemdir við efni fréttarinnar og hefur sent Morgunblaðinu og mbl.is eftirfarandi:

„Ýmsar rangfærslur birtast í forsíðufrétt Morgunblaðsins í dag, þar sem fjallað er um gerð og innihald nýs þjónustusamnings við Ríkisútvarpið. Fréttin er byggð á samtölum við þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem telja sig svikna en vilja ekki koma fram undir nafni. 

Samskipti mín við fjölmiðla eru góð og starfsfólk Morgunblaðsins þekki ég að góðu einu – fagmennsku og sanngirni. Hvorugu er fyrir að fara í forsíðufrétt dagsins. Ég geri alvarlegar athugasemdir við það. 

  1. Nýr þjónustusamningur við RÚV ohf. er ekki fullgerður. Samningur er ekki undirritaður af stjórn RÚV, eins og ranglega fram kemur í fréttinni. Fyrir liggja samningsdrög, sem stjórn RÚV hefur fjallað um og samþykkt að veita útvarpsstjóra heimild til að ganga frá við mennta- og menningarmálaráðherra. Hvorki ráðherra né útvarpsstjóri hafa undirritað samninginn. 
  2. Samráð. Fulltrúar beggja stjórnarflokka hafa fengið samningsdrögin til skoðunar. Samvinna við fulltrúa stjórnarflokkanna í fjölmiðlamálum hefur almennt gengið vel.
  3. Ragnheiður Ríkharðsdóttir er ekki stjórnarformaður RÚV ohf., eins og ranglega segir í fréttinni.
  4. Fyrirspurn Morgunblaðsins til ráðherra fjallaði ekki um megininntak fréttarinnar. Fyrirspurn frá öðrum blaðamanni Morgunblaðsins, um hvort þjónustusamningur hefði verið undirritaður, barst ráðuneytinu á miðvikudaginn og var honum svarað samdægurs. Í svari ráðuneytis kom skýrt fram að ekki væri búið að undirrita þjónustusamninginn.

Eftir stendur, að stjórnvöld hafa einsett sér að bæta rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla. Ég hef lagt mig alla fram um það og klárað frumvarp þess efnis. Ég skora á þá sem vilja hag fjölmiðla sem mestan að fylkja sér að baki fjölmiðlafrumvarpinu á yfirstandandi þingi, ásamt því að ráðast í fleiri umbætur sem tengjast stóru alþjóðlegu efnisveitunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert