Losnað um stærra svæði

Hleiðargarðsfjall í Eyjafirði. Myndirnar voru teknar í dag.
Hleiðargarðsfjall í Eyjafirði. Myndirnar voru teknar í dag. Ljósmynd/Haukur Arnar Gunnarsson

Losnað hefur um stærra svæði í kringum skriðusárið í Hleiðargarðsfjalli, ofan við bæinn Gilsá 2 í Eyjafirði, þar sem aurskriðan féll á þriðjudag.

Þetta sýna myndir Veðurstofunnar, en sérfræðingar á hennar vegum hafa áfram skoðað aðstæður í dag.

Rýming er enn í gildi á bæjunum.
Rýming er enn í gildi á bæjunum. Ljósmynd/Haukur Arnar Gunnarsson

Rýming áfram í gildi

Skriðuhætta er sögð enn til staðar í fjallinu. Lítil hreyfing hafi verið í skriðusárinu í dag og lítið um að vatn, aur eða grjót hafi gengið fram.

Rýming mun áfram gilda á bæjunum Gilsá 1, Gilsá 2 og sumarbústað við Gilsá 2. Vegurinn um Eyjafjarðarbraut vestari hefur hins vegar verið opnaður fyrir umferð.

Ekki er útilokað að fleiri skriður geti fallið á svæðinu, að því er fram kemur í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Staðan verði endurmetin á morgun.

Sérfræðingar á vegum Veðurstofunnar hafa skoðað aðstæður í dag.
Sérfræðingar á vegum Veðurstofunnar hafa skoðað aðstæður í dag. Ljósmynd/Haukur Arnar Gunnarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert