Aðeins um 200 plöntur af sjaldgæfum burkna

Tunguskollakambur. Burkninn þrífst einungis við jarðhitasvæði.
Tunguskollakambur. Burkninn þrífst einungis við jarðhitasvæði.

Burkninn tunguskollakambur er meðal sjaldgæfustu plantna sem finnast hér á landi. Hann hefur verið á válista sem tegund í hættu, en gæti á næsta ári lent á alþjóðlegum lista yfir tegundir í útrýmingarhættu, samkvæmt upplýsingum Pawels Wasowicz, grasafræðings hjá Náttúrufræðistofnun. Yrði tunguskollakambur þá eina plöntutegundin á Íslandi á þessum lista.

Tunguskollakambur finnst aðeins svo vitað sé á einum stað á Íslandi, við Deildartunguhver í Borgarfirði. Pawel segir að þar séu um það bil 200 plöntur, en útilokar þó ekki að hann leynist annars staðar.

Árið 2015 fór Pawel í rannsóknaferð og heimsótti jarðhitasvæði víða um land þar sem tunguskollakambur hafði áður verið skráður. Í ljós kom að í öllum tilvikum, nema við Deildartunguhver, fannst aðeins venjulegur skollakambur. Tunguskollakambur vex einungis í nágrenni við jarðhita og er náskyldur skollakambi. Pawel segir líklegt að tunguskollakambur hafi áður verið útbreiddari, en vegna rasks á jarðhitasvæðum hafi burkninn gefið eftir.

Tunguskollakambur gæti verið meðal fárra einlendra plöntutegunda hér á landi, en á Vísindavefnum er eftirfarandi skilgreiningu að finna á einlendum tegundum: „Einlend (e. endemic) tegund er tegund sem er upprunaleg og finnst aðeins á einu tilteknu svæði og hvergi annars staðar. Svæði getur verið eyja, land eða ákveðið búsvæði.“ Hér á landi er ein önnur einlend æðplöntutegund þekkt, en það er hveraaugnfró.

Skortur á einlendum tegundum

Í nýtútkominni ársskýrslu Náttúrufræðistofnunar er fjallað um einlendar tegundir og tunguskollakamb. Þar segir: „Eitt af einkennum íslenskrar flóru er nánast alger skortur á einlendum tegundum. Það gerir hana ólíka flóru annarra eyja á norðurheimskautinu, eins og Grænlands og Svalbarða, þar sem einlendar plöntutegundir eru margar. Það er ríkjandi skoðun flestra vísindamanna að íslenska flóran hafi gjöreyðst við síðasta jökulskeið og síðan þróast aftur frá byrjun.

Rannsóknir á íslenskri flóru síðustu ár benda til að ein íslensk burknategund verðskuldi það að kallast einlend tegund. Enginn vafi leikur á að hún er mjög frábrugðin svipuðum burknum í Evrópu og um allan heim.“

Síðan segir frá því að danski grasafræðingurinn Christian Grønlund hafi fundið undarlega plöntu sem óx á strýtu við Deildartunguhver í Íslandsleiðangri sínum 1876.

„Nú, um 140 árum síðar, hefur staða þessarar áhugaverðu plöntu verið endurmetin og mjög ítarlegar flokkunarfræðilegar rannsóknir sýna fram á að plantan getur vissulega flokkast sem tegund – ný íslensk, einlend tegund, tunguskollakambur, Struthiopteris fallax,“ segir í ársskýrslunni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert