Boðar fjölmennt og öruggt mótefnapartí

3.500 Íslendingar hafa smitast af kórónuveirunni og Árni Steinn Viggósson …
3.500 Íslendingar hafa smitast af kórónuveirunni og Árni Steinn Viggósson er einn þeirra. Hann boðar mótefnapartí á b5. Hann er viss um að þeir slái ekki hendinni við viðskiptunum. Ljósmynd/Aðsend

Einn þeirra 1.017 sem eru í einangrun vegna kórónuveirusmits á Íslandi þessa stundina er Árni Steinn Viggósson rekstrarmaður. Honum er batnað og hefur þegar afplánað viku af innilokun, eftir að hafa nælt sér í veiruna á vettvangi höfuðborgarinnar í þarsíðustu viku. 

Hvar?

„Ég hef ekki hugmynd. Í þessum þriggja daga glugga þar sem ég hef líklega smitast fór ég mjög víða. Ég borðaði tvisvar í Smáralindinni, fór í tvo hóptíma í World Class, fór í sundlaug og hitti marga góða vini. Þá voru einhverjir af þeim með mér í mörgu af þessu, en þeir hafa ekki greinst. 

Ég hef því líklega bara tekið í eitthvað á einhverjum tímapunkti sem aðrir tóku ekki í, því á sunnudeginum fer ég í skimun vegna einkenna. Innst inni hugsaði ég að það gæti ekki verið að ég væri með þetta en síðan fékk ég bara símtal úr heimasímanúmeri og hugsaði bara jæja, ókei,“ lýsir Árni.

Sápubragð af Pepsi Max

Árni greindist með veiruna og slapp ekki við helstu einkenni enda þótt þau hafi vissulega verið skammvinn í hans tilfelli. „Fyrst fann ég fyrir voðalegri þreytu í bakvöðvunum, sem er óvanalegt, og síðan tók við ofsaþreyta og ég háttaði langt fyrir háttatíma. Vaknaði með kvef, beinverki, eymsl í hálsi og hita. 

Eftir að ég greindist versnaði mér í tvo daga og ég missti bragðskynið og matarlystina. Ég fann til dæmis sápubragð af Pepsi Max. Á þriðja degi vaknaði ég síðan einkennalaus og þá biðu mín ellefu dagar enn af einangrun.“

Þegar Árni greindist sendi hann þrjá vini sína í sóttkví, sem greindust síðan allir smitlausir, þrátt fyrir mikið návígi við Árna á tíma þar sem hann á að hafa verið smitandi. Hann var það greinilega ekki.

Árni brallaði ýmislegt áður en hann fékk einkenni. Fór að …
Árni brallaði ýmislegt áður en hann fékk einkenni. Fór að vísu ekki á fjöll einmitt þá. Ljósmynd/Aðsend

Helst að sem flestir mæti í partí á b5

Nú er Árni hraustur, farinn að drekka bragðmikið Pepsi Max af bestu lyst heima í einangrun og sér fram á betri tíð.

Hann er einn af um 3.500 Íslendingum sem eru komnir hinum megin við grindverkið, þangað sem grasið kvað vera grænna og þangað sem enginn drífur nema að undangenginni þessari skírn í eldi: Hann er kominn með mótefni.

„Ég er auðvitað bara mjög heppinn að fá þetta og sleppa svona vel. Nú get ég bara hætt að pæla í þessu. Kórónuveiran er ekki lengur vandamál fyrir mig persónulega og ég get gert allt sem ég vil, þ.e.a.s. þegar ég er kominn úr einangrun og búinn að fá mótefnaskírteini frá hinu opinbera,“ segir Árni.

Ofarlega á óskalistanum er að blása til fjölmenns en um leið fullkomlega öruggs mótefnapartís, eins og hann kallar það. „Já, það er komið að því. Þá er bara öllum boðið sem eru komnir með mótefni. Það þarf bara hátt hlutfall að mæta, þar sem þetta eru bara 3.500 manns. 5% af þeim væru bara 175 manns og við þyrftum mun betri mætingu en það. Ég held að það væri feit stemning fyrir þessu og ég efast ekki um að b5 tæki viðskiptunum fagnandi,“ segir Árni.

Vegan veitingastaður í blóðugu stríði

Sjálfur rekur Árni veitingastað, Spes Kitchen í Granda mathöll. Hann opnaði í nóvember á síðasta ári og rokseldi (100% vegan) mat í nokkra mánuði áður en veiran knúði dyra.

Ljósmynd/Aðsend

„Nú eru náttúrlega bara allir að berjast fyrir lífi sínu í þessu og við höfum skert afgreiðslutímann verulega. Það eru bara fáir kjaftar þarna úti sem eru að leita sér að einhverju að borða einmitt núna,“ segir Árni.

Nýjar lausnir hafa litið dagsins ljós, eins og heimsendingar, en Árni lýsir því að markaðurinn sé þrátt fyrir það í miklu uppnámi.

„Það eru allir að undirbjóða alla út um allan bæ, þetta er bara algert blóðbað með ókeypis heimsendingum og tilboðum á tilboð ofan. Þetta er auðvitað engum til framdráttar en þetta er bara það sem fólk þarf að gera. Ég treysti bara á að fólk styðji staðina sem því líkar við og á meðan á ég fyrir launum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert