Farsælt samstarf senn á enda

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir það mjög æskilegt að sýkla- og veirufræðideild Landspítalans fái þann tækjakost sem deildin þarf til þess að geta greint öll þau kórónuveirusýni sem tekin eru á degi hverjum.

ÍE og sýkla- og veirufræðideild hafa undanfarið haft samvinnu um greiningu kórónuveirusýna og segir Kári það samstarf hafa reynst afar vel. Deildin undirbýr nú komu nýs tækis til landsins, sem getur greint 4.000 sýni á dag og verður deildin því ekki aðstoðarþurfi lengur.

„Ég held að það væri mjög æskilegt að deildin geti greint sjálf öll þessi sýni. Það er í sjálfu sér ekki svo flókið. Það sem hins vegar er oft snúið, það er að geyma og varðveita öll þau gögn sem unnið er með,“ segir Kári í samtali við mbl.is

Hann segir að Íslensk erfðagreining hafi gefið Lanspítalanum hugbúnað til þess að gera gagnavinnsluna auðveldari.

„Við gáfum þeim hugbúnað sem á að auðvelda alla þessa vinnu. Með þeim hugbúnaði og þessu nýja tæki sem von er á munu þau hæglega geta ráðið við þetta allt saman sjálf.“

Spurður hvernig samstarfið hafi gengið segir Kári ekki yfir neinu að kvarta.

„Þetta hefur verið mjög farsælt samstarf og það er ekki hægt að kvarta yfir neinu.“

Bjartsýnn á framhaldið

Kári segist vera bjartsýnn á framhaldið miðað stöðu faraldursins núna. Örlítil fækkun hefur verið á heildarfjölda smita dag hvern og hærra hlutfall fólks er í sóttkví við greiningu. Hins vegar megi fólk ekki gleyma sér. 

„Ég er býsna bjartsýnn á þessu augnabliki, já.“

En er þá aðkomu ykkar að viðbragði við kórónuveirufaraldrinum lokið, að undanskidum ykkar eigin rannsóknum?

„Nei, við munum enn raðgreina veiruna. Það er gríðarlega mikilvægt halda því áfram til þess að skilja betur ástandið hverju sinni: hvaða veirustofna verið er að glíma við og þess háttar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert