Verði fróðlegt að sjá niðurstöðu dómstóla

Efnahagslegar afleiðingar kórónuveirufaraldursins hafa verið miklar.
Efnahagslegar afleiðingar kórónuveirufaraldursins hafa verið miklar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ýmis álitaefni tengd kórónuveirufaraldrinum gætu komið fyrir dómstóla hér á landi. Tilmæli yfirvalda og efnahagslegur samdráttur hafa haft umfangsmikil áhrif á fyrirtæki, ekki síst í ferðaþjónustu, og samninga þeirra á milli. 

Greint var frá því í dag að Hverfisbarinn ehf. hefur stefnt Coca Cola European Partners Ísland, áður Vífilfell, til greiðslu tæplega 8,7 milljóna króna. Málið varðar að hluta hvaða áhrif Covid-19 faraldurinn á að hafa á samninga, hvort þeir standi samkvæmt efni sínu eða hvort aðilar geti losnað undan skyldum samkvæmt þeim. 

Víðir Smári Petersen, hæstaréttarlögmaður og lektor við lagadeild Háskóla Íslands, segir það verða fróðlegt að sjá niðurstöðu dómstóla um álitaefni tengdum faraldrinum. 

„Það þarf væntanlega að skoða hvert tilvik fyrir sig og það verður fróðlegt að sjá niðurstöðu dómstóla um þetta, með hvaða hætti réttarreglum kröfuréttarins og samningaréttarins verður beitt. En það verður örugglega erfitt að finna eitthvað fordæmi sem tekur á öllum tilvikum í eitt skipti fyrir öll,“ segir Víðir. 

„Annars vegar getur reynt á réttarreglur um óviðráðanleg atvik og síðan hvort að það sé ósanngjarnt fyrir samningsaðila að bera fyrir sig samning á meðan á þessu ástandi varir. Það er held ég voðalega erfitt að spá fyrir um niðurstöðu dómstóla, þetta eru tímar sem við höfum ekki séð áður.“

Málaferli taki sinn tíma 

Að mati Víðis þyrftu nokkur mál að fara fyrir dómstóla svo að hægt verði að draga ályktun um þýðingu kórónuveirufaraldursins á skuldbindingargildi samninga. Telji dómstólar að faraldurinn hafi síðan þýðingu verður að koma í ljós í hverju það felst. 

„Á einhverjum tímapunkti munu mál fara koma inn í dómskerfið, það eru góðar líkur á því. En við vitum náttúrulega ekki hvenær endalok þessa faraldurs verða og svo hafa stjórnvöld líka boðað frekari aðgerðir. Það gæti verið að fyrirtæki sem höfðu séð fram á að höfða dómstól fái einhver úrræði hjá ríkinu. Það er erfitt að segja eitthvað um afleiðingarnar, en ef samningsaðila greinir á um hvernig eigi að fara með þessa samninga er náttúrulega eðlilegt að dómstólar skeri úr um það. Það verða örugglega einhverjar línur lagðar af Hæstarétti en það gæti tekið sinn tíma að fá skýrar línur um helstu atriði,“ segir Víðir. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert