Börn foreldra í fíknivanda fá sálfræðiþjónustu

Valgerður Rúnarsdóttir, forstjóri Sjúkrahússins á Vogi og framkvæmdastjóri lækninga, Ásmundur …
Valgerður Rúnarsdóttir, forstjóri Sjúkrahússins á Vogi og framkvæmdastjóri lækninga, Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, Ingunn Hansdóttir, yfirsálfræðingur SÁÁ, og Einar Hermannsson, formaður SÁÁ, skrifuðu undir samninginn rafrænt. Ljósmynd/Aðsend

Börn sem búa við fíknisjúkdóm aðstandenda fá aðgang að sálfræðiþjónustu SÁÁ-samtakanna, en samningur þess eðlis var undirritaður á milli SÁÁ og ríkisins í dag. Með samningnum mun félagsmálaráðuneytið fjármagna eina stöðu sálfræðings til eins ár, til þess að auka sálfræðiþjónustu til barna skjólstæðinga SÁÁ. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum.

Einnig munu foreldrar sem leggjast inn á Vog, eða fá göngudeildarþjónustu, fá kynningu á sálfræðiþjónustu barna og þeim sem eiga börn á aldrinum 8-18 ára verður boðið að skrá þau í þjónustu hjá SÁÁ. Markmiðið er að hægt verði að bjóða hverju barni upp á allt að 8 viðtöl hjá sálfræðingi. Þjónustan verður veitt bæði samhliða því sem foreldrar eru í áfengis- og vímuefnameðferð og þegar fjölskylda er á námskeiði í fjölskyldudeild.

Haft er eftir Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra, að hann vonist til þess að þetta skref leiði til þess að „okkur sem samfélagi tekst til frambúðar að taka betur utan um börn, hjálpa þeim að skilja og takast á við áhrifin sem þetta hefur á viðkomandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert