Olíumengun barst í hreinsistöðina í Klettagörðum

Olían kom frá notanda í kerfinu en afar erfitt að …
Olían kom frá notanda í kerfinu en afar erfitt að rekja uppruna mengunarinnar. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur barst tilkynning frá Veitum síðastliðinn fimmtudag um að olía væri að berast inn í hreinsistöðina í Klettagörðum. Um talsvert magn var að ræða og megna lykt lagði um stöðina. Olían kom frá notanda í kerfinu en hreinsistöðin í Klettagörðum tekur við fráveituvatni frá stórum hluta höfuðborgarsvæðisins og því afar erfitt að rekja uppruna mengunarinnar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. 

Hreinsistöðin í Klettagörðum.
Hreinsistöðin í Klettagörðum. Ljósmynd/Aðsend

Þar segir ennfremur, að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur vilji í ljósi þessa hvetja fyrirtæki til að kanna ástand olíuskilja og tryggja að búnaðurinn virki sem skyldi. Einnig skoða geymslu á úrgangsolíu, stöðu í úrgangsolíutönkum og niðurföll í geymsluaðstöðu fyrir olíu og spilliefni. 

„Heilbrigðiseftirlitið bendir á nauðsyn þess að geyma olíu og spilliefni í lekabyttum eða lekaþróm og gæta þess að þessi efni séu ekki geymd í nágrenni við niðurföll. Verði óhapp og olía eða önnur mengandi efni berast í fráveitu skal þegar tilkynna slíkt til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Nauðsynlegt er að bregðast fljótt við til að lágmarka skaðann,“ segir jafnframt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert