„Skárra að fá hópsmit á þessum stað“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ef maður dregur þessi 19 [smit hjá áhöfn frystiskipsins] frá þá hefðum við verið á ágætis róli en auðvitað breytir tala smitanna í bátnum þessu svolítið. Á móti kemur að þeir hafa ekki smitað neina aðra út frá sér vegna þess að þeir eru búnir að vera úti á rúmsjó,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is. 

62 smit kórónuveiru greindust innanlands í gær, þar af eru 19 frá áhöfn frystitogarans Júlí­us­ar Geir­munds­son­ar ÍS 270. Skipið kom til lands í morgun. Þórólfur telur að vísbendingar séu nú til staðar um að hertar aðgerðir sem tóku gildi annars vegar á landsvísu og hins vegar á höfuðborgarsvæðinu fyrir rúmum tveimur vikum séu farnar að bera árangur. 

Getum búist við hópsýkingum sem breyta kúrfunni

„Við getum búist við að fá svona hópsýkingar inn á milli sem breyta þá kúrfunni. Það er þó skárra að fá hópsmit á þessum stað út af fyrir sig en hópsmit hérna innanlands,“ segir Þórólfur. Með því á hann við að ef hópsmit koma upp innanlands sé um að ræða einstaklinga sem hafi gjarnan smitað aðra í samfélaginu áður en þeir greinast en þegar hópsmit kemur upp á bát sem þessum sé auðvelt að einangra þá sem voru á skipinu svo þeir smiti ekki út frá sér. Þannig sé einnig mjög ólíklegt að þeir hafi smitað aðra í samfélaginu þar sem þeir voru úti á sjó. 

Hvernig lítur tala innanlandssmita þá út að frádregnum þessum 19?

„Þetta verður alltaf eitthvað svona upp og niður. Þetta er ekkert slæmt fyrir innanlandssmitin. Það er sú tala sem við höfum verið að fylgjast með,“ segir Þórólfur. 

Erum við farin að sjá árangur af hertum aðgerðum?

„Ég held að það séu alveg klárlega vísbendingar um það að við séum farin að sjá árangur,“ segir Þórólfur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert