Uppbókað í alla tíma eftir tveggja vikna lokun

Eins og gefur að skilja var enginn í tækjasal World …
Eins og gefur að skilja var enginn í tækjasal World Class Ögurhvarfi þegar ljósmyndari leit við þar í dag, enda einungis búið að opna á skráningar í lokaða tíma; ekki fyrir aðgang að tækjasal. mbl.is/Árni Sæberg

Uppbókað er í alla tíma í World Class Ögurhvarfi í dag en fyrsti tíminn þar fer af stað klukkan hálf tíu. Biðlistar eru í flesta tíma og hefur síminn varla stoppað í morgun, að sögn starfsmanns á svæðinu. Fólk hefur t.a.m. spurt hvers vegna ekki sé hægt að opna stöðvarnar alveg, en nú er einungis opið fyrir skráningar í lokaða tíma sem að hámarki 19 manns mega skrá sig í.

Líkamsræktarstöðvar opnuðu dyr sínar fyrir gestum með miklum takmörkunum þó í morgun eftir tveggja vikna lokun. Eins og áður hefur verið greint frá heimilar reglugerð heilbrigðisráðherra líkamsræktarstöðvum að halda úti lokuðum tímum sem fólk skráir sig í og hafa flestar líkamsræktarstöðvar ákveðið að opna með þeim hætti. 

Þó er nokkuð ljóst að færri komast að en vilja, í það minnsta í mörgum stöðvum World Class á höfuðborgarsvæðinu. Uppbókað er í flesta tíma og biðlisti í marga þeirra. Er það vegna þess að aldrei verður fleirum en 19 hleypt inn í skipulagða tíma World Class, auk þjálfara. 

Stöð World Class í Ögurhvarfi í Kópavogi.
Stöð World Class í Ögurhvarfi í Kópavogi. mbl.is/Árni Sæberg

Íþróttamannvirki sveitarfélaga áfram lokuð

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í gær að líkamsræktarstöðvar væru ein helsta uppspretta smita í þriðju bylgju. Eigandi World Class kallaði eftir frekari útskýringu á því í viðtali við mbl.is í gær þar sem einungis einn þjálfari hefði smitast innan stöðvanna og tveir út frá honum.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fór á svig við tillögur Þórólfs þegar hún ákvað að birta reglugerð þess efnis að líkamsræktarstöðvum yrði heimilt að opna á lokaða hóptíma. 

Þrátt fyrir að líkamsræktarstöðvar í einkaeigu opni í dag er ekki sami hátturinn á fyrir íþróttamannvirki sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Þau verða áfram lokuð og sundlaugar sveitarfélaganna einnig. Íþróttakennsla verður þó leyfð utandyra.

Ákvörðunin verður endurskoðuð í næstu viku í takt við álit sóttvarnalæknis.

Nýjar sóttvarnareglur hafa tekið gildi fyrir landið allt og gilda til 10. nóvember en þær má lesa í heild sinni á covid.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert