Skortur var á árvekni

Ópal kemur til hafnar í Reykjavík
Ópal kemur til hafnar í Reykjavík mbl.is/Eggert Jóhannesson

Orsök strands farþegaskútunnar Ópals ÞH austur af Lundey í Kollafirði í fyrravetur var að mikilvæg árvekni við stjórn skipsins á siglingunni var ekki viðhöfð, segir í lokaskýrslu Rannsóknanefndar samgönguslysa, siglingasviðs.

Um borð í skútunni voru 16 farþegar og tveir í áhöfn, en ekki urðu slys á fólki, né skemmdir á skipinu.

Við strandið sendi skipstjóri út neyðarkall og var mögulegur leki kannaður, en hann reyndist ekki vera. Björgunaraðilar voru kallaðir út en skipverjar gátu losað skipið eftir nokkrar mínútur á strandstað og siglt því til hafnar í Reykjavík í fylgd dráttarbátsins Jötuns.

Ópal var í skoðunarferð með farþega um sundin út af borginni að kvöldi 6. febrúar þegar óhappið varð. Siglt hafði verið undir segli og vélarafli. Í lokaskýrslunni segir að við rannsókn málsins hafi komið fram, samkvæmt upplýsingum skipstjóra, að um mistök hafi verið að ræða. Sjálfstýring, sem tengd var segulkompás skipsins, hefði ekki haldið stefnu og vegna ljósa á þilfari hefði skipstjórinn ekki séð eyjuna.

Háseti að sækja veitingar

Háseti hefði farið niður að sækja veitingar fyrir farþega og skömmu síðar hefði skipstjóri vikið frá stýrinu til þess að kveikja þilfarsljós og aðgæta með fokkuseglið. Það hafi tekið lengri tíma en hann áætlaði og um leið og hann kom aftur að stjórnpallinum til að aðgæta staðsetninguna hafi skipið tekið niðri.

Fram kemur í skýrslunni að samkvæmt gildandi mönnunarreglum fyrir skipið mátti ekki nota segl á siglingunni miðað við mönnun þess. Jafnframt að ekki var rétt lögskráð á skipið. Málsatvik eru rak in nánar í skýrslunni. Þar kemur fram að skipstjórinn var mjög vanur skipinu. aij@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert