Ísland af gráa listanum

Katrín Júlíusdóttir, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Teitur Már Sveinsson á …
Katrín Júlíusdóttir, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Teitur Már Sveinsson á fundinum í Hörpu. mbl.is/Árni Sæberg

Ísland hefur verið tekið af lista Financial Action Task Force (FATF) sem sem er alþjóðlegur starfshópur gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Ísland er því ekki lengur á gráa listanum svokallaða. FATF tók þess ákvörðun á fundi sínum í dag eftir vettvangsrannsókn í september síðastliðnum. 

Í tilkynningu segir að það hafi verið staðfest af hálfu sérfræðinga á vegum FATF að lokið hefði verið með fullnægjandi hætti við þær aðgerðir sem Íslandi var gert að grípa til í því skyni að komast af umræddum lista. Við sama tilefni var jafnframt staðreynt af hálfu umræddra sérfæðinga að til staðar væri ríkur pólitískur vilji hjá íslenskum stjórnvöldum til að halda áfram vinnu við að styrkja varnir Íslands gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra tilkynnti um málið á blaðamannafundi. Í ræðu sinni þar sagðist hún fagna niðurstöðunni og sagði að frá fyrstu úttekt FATF frá árinu 2017 hafi íslensk stjórnvöld, stofnanir, fyrirtæki og einstaklingar unnið markvisst að úrbótum á þessu sviði. 

„Mikilvægt er að nefna að almenningur hefur brugðist skjótt og vel við ákalli um að skrá raunverulega eigendur félaga. Þar hefur ótrúlegur árangur náðst á aðeins einu ári og hafa nú rétt rúmlega 93% skráð raunverulega eigendur hinna ýmsu félaga. Slíkur árangur er ekki sjálfsagður og verður fordæmi fyrir önnur lönd,“ segir Áslaug Arna í ræðu sinni. 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráğherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráğherra. Kristinn Magnússon

Þá segir hún að þrátt fyrir að Ísland hafi verið ósátt við ákvörðun um að setja landið á þennan lista hafi málefnið verið tekið föstum tökum og þær ábendingar sem borist hafi frá FATF annað hvort verið leystar eða komnar í skýrt skilgreindan farveg.  

Þá segir Áslaug að í viðleitni sinni til að komast af listanum hafi farið fram mikil vinna innan stjórnsýslunnar. Meðal annars fólu þær í sér setningu nýrra laga, reglna og reglugerða og aðra umfangsmikla vinnu innan stjórnsýslunnar. „Samvinna og samhæfing milli stjórnvalda og stofnana var stóraukin, nýjar skrár og kerfi innleidd og fræðsla aukin. Þá settu íslensk stjórnvöld sér sérstaka stefnu í málaflokknum,“ segir Áslaug. 

Lá fyrir í júní 

Þá segir Áslaug að þessi niðurstaða hafi legið fyrir í júní en vegna kórónaveirufaraldursins hafi tafist hjá FATF að tilkynna þetta formlega. 

„Ég vil þó segja hér að lokum að við verðum að draga réttan lærdóm af þessari reynslu. Málaflokkurinn verður áfram í brennidepli stjórnvalda þannig að tryggt verði að ekki komi til álita að Ísland lendi í sömu stöðu aftur. Fjórða úttektin stendur nú yfir og við leggjum áherslu á að tryggja það að við uppfyllum ávallt þau skilyrði sem upp verða sett varðandi þessar mikilvægu varnir fyrir íslenskt hagkerfi og efnahagslíf,“ segir Áslaug.  

„Allt frá því að ég varð ráðherra fyrir rúmu ári síðan hef ég lagt mikla áherslu á þær endurbætur sem gera þurfti til að ná þessum áfanga sem við nú höfum náð. Til þess hef ég notið stuðnings ríkisstjórnarinnar og ekki síður stjórnsýslunnar,“ segir Áslaug. 

Mikil áhrif á Íslenskt efnahagslíf  

Þegar ég segi að við þurfum að læra af reynslunni á ég bæði við stjórnmálin og stjórnsýsluna. Þessi reynsla er áminning um að við þurfum að gera betur. Það að lenda á lista sem þessum hefur mikil áhrif á íslenskt atvinnulíf, ekki bara fjármálafyrirtæki heldur nær öll fyrirtæki sem stunda alþjóðleg viðskipti. Ef Ísland ætlar að vera þátttakandi í alþjóðlegu viðskiptalífi, sem við svo sannarlega erum, þurfa stjórnvöld að tryggja að regluverkið uppfylli öll nauðsynleg skilyrði þannig að íslensk fyrirtæki og einstaklingar geti stundað slík viðskipti án óþarfa hindrana. Sú hagsæld sem við búum við hvílir á alþjóðlegum viðskiptum sem öðru fremur byggja á trausti milli aðila og skilyrðum um að flutningur á fjármagni, vöru og þjónustu sé með öruggum hætti. 

Þetta er líka áminning um að stjórnsýslan er til fyrir fólkið en ekki öfugt. Það að tryggja fyrrnefnd skilyrði á ekki að vera stjórnsýslunni þungbært en það getur hins vegar verið atvinnulífinu þungbært að Ísland sé flokkað með þessum hætti. Það hefur neikvæð áhrif á hagkerfið og þar með neikvæð áhrif á heimili og fyrirtæki í landinu.

Fréttatilkynning í heild sinni 

Ísland af „gráum“ lista FATF

Á aðalfundi FATF, alþjóðlegs fjármálaaðgerðahóps ríkja um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, í dag var sú ákvörðun tekin að nafn Íslands yrði fjarlægt af lista samtakanna yfir ríki með ófullnægjandi varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, eða hinum svokallaða „gráa lista“ FATF.

Ákvörðunin var tekin í kjölfar vettvangsathugunar sem fram fór hér á landi í lok september, þar sem staðfest var af hálfu sérfræðinga á vegum FATF að lokið hefði verið með fullnægjandi hætti við þær aðgerðir sem Íslandi var gert að grípa til í því skyni að komast af umræddum lista. Við sama tilefni var jafnframt staðreynt af hálfu umræddra sérfæðinga að til staðar væri ríkur pólitískur vilji hjá íslenskum stjórnvöldum til að halda áfram vinnu við að styrkja varnir Íslands gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert